„Mér finnst ég enn þá örugg hérna“

Ólafstún 12 í nóvember. Þó veturnir á Flateyri geti verið …
Ólafstún 12 í nóvember. Þó veturnir á Flateyri geti verið þungir er Edda hvergi á förum. Ljósmynd/Aðsend

„Við þurftum að rýma um daginn, en þegar við máttum fara heim var ég ekkert í vandræðum með hvort ég ætti að vera áfram annars staðar. Það er bara sjálfsagt að fara þá heim. Mér finnst ég enn þá örugg hérna.“

Edda kenndi við grunnskólann á Flateyri í 16 ár áður …
Edda kenndi við grunnskólann á Flateyri í 16 ár áður en hún komst nýlega á eftirlaun. Ljósmynd/Aðsend

Þetta segir Edda Graichen, þýsk kona sem búið hefur á Flateyri og kennt við grunnskóla bæjarins í 16 ár. Edda býr við Ólafstún 12, ysta húsið sem búið er í á Flateyri og húsið við hlið þess sem varð fyrir snjóflóði 14. janúar á síðasta ári. Rýma þurfti þrjú hús á Flateyri um helgina og var hús Eddu eitt þeirra.

Nágrannar Eddu fluttu úr húsinu í kjölfar hamfaranna síðasta vetur, en Edda kveðst ekki vera á förum. „Ég á húsið og var alltaf með vinnu á Flateyri, en er komin á eftirlaun núna. Ég er ekki komin á þann stað að flytja, en af því ég er komin á eftirlaun ætlaði ég að vera á milli landa en það kom Covid,“ segir Edda í samtali við mbl.is, en leiðréttir þá ályktun blaðamanns að hún hafi þá haft í huga að vera árstíðabundið á Flateyri.

Hrifin af íslenskum vetri

„Ekki árstíðabundið, ég er ekki þannig, mér finnst veturinn eiginlega bara fínn og ég treysti varnargarðinum alltaf. Það er ekki ástæða til að gera það ekki nema í fyrra, en þá hafði safnast svo mikið af snjóflóðum áður en flóðin féllu 14. janúar, en það er ekkert þannig núna,“ segir Edda en bætir því við að hún sé auðvitað enginn vísindamaður, en að hún treysti vísindamönnum.

„Mér fannst mjög flott þegar þau voru með íbúafund í nóvember og mér fannst mjög flott sem þau voru búin að kanna og segja okkur þá.“

Edda er menntaður grunnskólakennari og hefur kennt alla ævi, en flutti til Flateyrar fyrir 16 árum og vill hvergi annars staðar vera. „Ég bjó aldrei annars staðar [á Íslandi] nema ár á undan á Ísafirði. Þar ætlaði ég að kanna veturinn, og mér fannst það ekkert svo slæmt svo ég flutti hingað. Það var tilviljun því það var bara starf laust. Ég er enn þá ánægð hérna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert