Boðar tímamót í undirbúningi Sundabrautar

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Línur munu skýrast um uppbyggingu Sundabrautar í vikunni þegar ný skýrsla starfshóps um brautina kemur út. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann segir að skýrslan marki tímamót í undirbúningi vegarins.

Starfshópur sem skipaður var í fyrravor um framtíðarlegu Sundabrautar mun skila af sér niðurstöðum til ráðherra á næstu dögum.

Í hópnum sátu fulltrúar Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahafna og var honum ætlað að endurmeta og skoða tvo fýsilega kosti fyrir legu Sundabrautar milli Sæbrautar og Gufuness, annars vegar jarðgöng en hins vegar lágbrú.

„Tilgangurinn var fyrst og fremst að fara yfir þessa tvo valkosti og kanna til hlítar, uppfæra kostnaðaráætlanir og sjá til lands með Sundabrautina eins og hún liggur í heilu lagi,“ segir Sigurður Ingi.

Tölvuteiknuð mynd af lágbrú. Í hægra horninu má sjá áætlaða …
Tölvuteiknuð mynd af lágbrú. Í hægra horninu má sjá áætlaða legu leiðanna tveggja.

Lágbrú er ódýrari framkvæmd og hefði þann kost að geta nýst öðrum samgöngumátum en gangandi, til að mynda hjólreiðamönnum. Sá böggull fylgir þó skammrifi að lágbrú myndi þvera athafnasvæði Sundahafnar og kalla á breytt skipulag hennar. Reykjavíkurborg hefur kosið jarðgangaleiðina en sjálfur hefur Sigurður Ingi talið lágbrú vænlegri kost.

Spurður hvort sátt hafi náðst milli aðila með tilkomu þessarar skýrslu segir Sigurður Ingi að ekki sé hægt að segja til um það fyrr en skýrslan kemur út. „En ég get hins vegar sagt að þessi vinna hefur skilað mjög góðum árangri og niðurstöðurnar eru áhugaverðar og jákvæðar í alla staði.“ 

Unnið í samstarfi við einkaaðila

Sundabraut er ein sex framkvæmda sem framkvæma á gegnum samstarfsverkefni hins opinbera og einkageirans (PPP) en hin eru hringvegur norðaustan Selfoss og brú yfir Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga og hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjall. Sundabrautin er stærst þessara verkefna, en tvö þeirra, Hornafjarðarfljót og Axarvegur, hefjast á þessu ári.

Gert er ráð fyrir að eitt félag yrði stofnað utan um hverja framkvæmd, en Sigurður Ingi segir að umsvif þeirra geti verið misjöfn milli verkefna eftir því hve stór þau eru. Þannig gætu einhver séð aðeins um framkvæmdir, en önnur fjárfestingu og jafnvel rekstur sömuleiðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert