Framkvæmdaraðilar muni bera ábyrgð á mistökunum

Tjónið af vatnslekanum er gífurlegt fyrir Háskóla Íslands
Tjónið af vatnslekanum er gífurlegt fyrir Háskóla Íslands mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við teljum einsýnt að þeir aðilar sem stóðu að þessu muni bæta þetta tjón. Það er talað um að mistök hafi leitt til þessa og við fengum kynningu á þessu í morgun,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um ábyrgð á vatnsleka í nokkrum byggingum háskólans í síðustu viku. Hann olli miklu tjóni.

„Það er alveg til fyrirmyndar hvernig staðið hefur verið að upplýsingagjöfinni gagnvart okkur,“ bætir hann við.

Við framkvæmdir á vegum Veitna við Suðurgötu voru gerð mistök sem ollu því að stofnlögn vatns fór í sundur þegar gríðarlegt magn af vatni flæddi inn í byggingar háskólans. Þetta er niðurstaða greiningar Veitna á atvikinu bráðabirgðaniðurstöður hafa verið kynntar tryggingarfélagi Veitna.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli segir enn verið að vinna að því að hreinsa út eftir lekann og ekki sé hægt að leggja mat á tjónið enn sem komið er. Það verði þó ekki kennt í þeim kennslustofum þar sem flæddi inn fyrr en næsta haust.

„Það er áfram verið að hreinsa út og vinna í málum, rífa út og fjarlægja það sem hægt er. Það eru skemmdir á veggjum, hurðum, gólfum og út um allt. Það þurfti að rífa teppin öll upp,“ útskýrir Jón Atli.

mbl.is