Gestur tók eftir því að maðurinn væri í vanda

Maðurinn sem lést var staddur í innilaug Sundhallarinnar.
Maðurinn sem lést var staddur í innilaug Sundhallarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðvörunarkerfi sem á að gefa frá sér tilkynningu ef manneskja er hreyfingarlaus á botni sundlaugar var til staðar í Sundhöll Reykjavíkur. Kannað er hvort kerfið hafi brugðist. Gestur í lauginni gerði sundlaugarvörðum viðvart um manninn sem lést. 

Þetta staðfestir Steinþór Einarsson, skrif­stofu­stjóri hjá íþrótta- og tóm­stundaráði borg­ar­inn­ar, í samtali við mbl.is

Þrír sem stóðu að björgun 

Eins og fram hefur komið var sá sem lést í Sundhöll Reykjavíkur á fimmtudag hinn 31 árs gamli Guðni Pétur Guðnason. Að sögn Steinþórs var það gestur sundlaugarinnar sem gerði starfsfólki viðvart um að hann væri í vanda. 

„Það var laugarvörður á bakka og laugarvörður í turni sem voru á vakt, en þetta gerist þannig að það var gestur sem gerði laugarverði viðvart. Það er yfirleitt þannig sem málin atvikast. Í framhaldinu fóru neyðarboð af stað og um leið voru komnir þrír sem hófu endurlífgun,“ segir Steinþór. 

Steinþór Einarsson skrifstofustjóri hjá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar.
Steinþór Einarsson skrifstofustjóri hjá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar. Eggert Jóhannesson

Eins og fram hefur komið var Guðni með geðfötluðum skjólstæðingi sínum í Sundhöllinni þegar andlátið átti sér stað. Að sögn Steinþórs var sá maður í staddur í heitum potti þegar atvikið átti sér stað en Guðni var í innilaug.  

Viðvörunarbúnaður var í lauginni 

Að sögn Steinþórs var búnaður frá Swimeye í lauginni en hann á að senda frá sér viðvörunarboð ef manneskja er hreyfingarlaus á botni laugarinnar í einhvern tíma. Á heimasíðu Swimeye segir að ef manneskjan er hreyfingalaus fari búnaðurinn af stað. Hægt sé að tímastilla það hvenær búnaðurinn gefur frá sér tilkynningu en upphafsstillingin er 15 sekúndur.  

Brást þessi búnaður?

„Þetta er eitt af því sem verið er að kanna. Þetta er ekki búnaður sem krafist er að sé í sundlaugum,“ segir Steinþór. 

Að sögn Steinþórs hefur enginn skoðað öryggismyndavélar nema lögregla og því sé nánari atvikalýsing ekki ljós. 

Spurður hvort vitað sé til þess að Guðni hafi sýnt einhver veikindaeinkenni eins og lögregla hélt fram í fyrstu tilkynningu segist Steinþór engar upplýsingar hafa um það.  

Að sögn Steinþórs hafa starfsmenn lögreglu og Vinnueftirlitsins verið að störfum í sundlauginni í morgun.

mbl.is