Krapaflóðið sleit í sundur stofnsamband Mílu

Ísinn og krapinn sem safnast hefur upp minnir helst á …
Ísinn og krapinn sem safnast hefur upp minnir helst á snjóflóð og þekur um 200 metra af veginum vestan við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Ljósmynd/Lögreglan

Krapaflóðið í Jökulsá á Fjöllum tók í sundur stofnsamband Mílu milli Reykjahlíðar og Hjarðarhaga. Aðstæður eru erfiðar á svæðinu og hefur verið lokað fyrir alla umferð og vinnu í kringum brúna yfir Jökulsá sem veldur því að fresta verður allri vinnu við strenginn fram til morguns.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mílu.

Greint var frá því fyrr í kvöld að Vegagerðin hefði lokað þjóðvegi 1 á milli Mý­vatns og Eg­ilsstaða vegna krapa­stíflu sem flæðir yfir veg­inn við brúna yfir Jök­ulsá á Fjöll­um.

Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá lög­regl­unni á Norður­landi eystra hef­ur flætt yfir veg­inn vest­an við brúna og flóðið skilið eft­ir sig gríðarlegt magn af krapa og ís. Krapa­haug­ur­inn er sagður líkj­ast snjóflóði en hann er um þriggja metra djúp­ur og nær yfir um 200 metra af veg­in­um. 

Unnið verður að því að moka af veg­in­um frá og með kvöld­inu en ljóst er að það mun taka lang­an tíma að klára það verk­efni. Þá er alls óljóst í hvernig ástandi veg­ur­inn er und­ir ísn­um. 

Uppfært: Í fyrri útgáfu kom fram að stofnstrengur Mílu hefði farið í sundur. Rétt er að um er að ræða mikilvægt stofnsamband Mílu sem fer um streng í eigu annars aðila. 

Það gæti tekið langan tíma að opna veginn á nýjan …
Það gæti tekið langan tíma að opna veginn á nýjan leik. Óvíst er í hvernig ástandi vegurinn verður eftir að búið er að moka ískrapinu af honum. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is