Meðvituð ákvörðun stjórnvalda að hækka matvöruverð

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

„Það verður ekki annað séð en að landbúnaðarráðherra hafi tekist vel upp í þeirri fyrirætlan sinni að hefta samkeppni á búvörumarkaði og skaða hag innflutningsverslunar og neytenda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í tilkynningu vegna úthlutunar tollkvóta fyrir búvörur.

Auglýsing atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um niðurstöðu útboðs á tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir búvörur samkvæmt samningi milli Íslands og Evrópusambandsins. Í tilkynningunni er bent á að úthlutunin tekur til tímabilsins janúar til apríl árið 2021 og tollkvótanum því úthlutað mánuði eftir að hann tók gildi.

„Miklar hækkanir eru á útboðsgjaldi, sem innflytjendur þurfa að greiða til að fá að flytja vörurnar inn án tolla og tugfaldast það í ýmsum tilvikum. Þetta mun án nokkurs vafa valda verðhækkunum á matvörumarkaði,“ segir í tilkynningu Félags atvinnurekenda.

Um áramót var tekin upp eldri aðferð við úthlutun tollkvóta og innflutningsheimildum er því úthlutað til hæstbjóðenda í stað svokallaðs jafnvægisútboðs.

Ráðherra hafi látið undan þrýstingi hagsmunahópa

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í byrjun árs 2020 að jafnvægisútboð væri til þess fallið að stuðla að auknu vöruúrvali, lægra vöruverði og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur. Í lok nóvember var þó ákveðið að notast aftur við fyrri aðferð. Í tilkynningunni er Kristján Þór sagður hafa látið undan þrýstingi hagsmunahópa í landbúnaðinum.

„Það er komið fram sem FA og fleiri samtök verslunar, neytenda og launþega vöruðu við, að breytt útboðsaðferð myndi valda mikilli hækkun á útboðsgjaldinu og þar með á vöruverði. Með því að innflutningur hækkar í verði er innlendum framleiðendum einnig auðveldað að halda uppi verðinu á sinni vöru. Á tímum þegar miklar þrengingar eru hjá mörgum heimilum og þúsundir þiggja atvinnuleysisbætur, taka stjórnvöld meðvitaða ákvörðun um að hækka matarverð,“ er einnig haft eftir Ólafi.

Taflan sýnir mun á verði eftir jafnvægisútboð annars vegar og …
Taflan sýnir mun á verði eftir jafnvægisútboð annars vegar og svo eftir að úthlutað var til hæstbjóðenda að nýju. Tafla/FA
mbl.is