Spurt hvort Kári sé þjóðhetja Íslendinga

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er tekinn tali á vef …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er tekinn tali á vef El País. Ljósmynd/Styrmir Kári

„Mætti ekki segja að hann sé orðinn einhvers konar þjóðhetja?“ spyr spænski fréttamiðillinn El País og vísar í spurningu sem hann beindi til Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í grein sem birtist á vef miðilsins í gær. „Það er eitthvað sem þú ættir að spyrja aðra að,“ svaraði Kári.

Á vef El País er fjallað um rannsóknarstörf Íslenskrar erfðagreiningar í kórónuveirufaraldrinum og hvernig fyrirtækið verið með þeim fyrstu til þess að komast að því að fólk geti borið kórónuveirusmit án þess að sýna einkenni, auk þess sem börn séu ólíklegri til þess að bera smit.

Greinin byrjar þannig: „Kári Stefánsson ítrekar að of miklar væntingar séu til genarannsókna og framfara á því sviði. Greinin nýtist vel til þess að hjálpa mönnum að skilja sjúkdóma betur en hún bindur ekki enda á þá á einni nóttu,“ segir þar.

Frammistaða Bandaríkjanna kemur á óvart

Farið er yfir árangur Íslands í baráttunni við veiruna, sem Íslensk erfðagreining á stóran þátt í, og slegið á þráðinn til Kára. Segir hann að spænska veikin sé Íslendingum í fersku minni og m.a. þess vegna hafi faraldurinn tekinn föstum höndum hér á landi.

Er fyrst haft eftir Kára að það komi á óvart að lönd með jafngóð tæki og tól eins og Bandaríkin, vettvangur miklilla framfara á sviði heilbrigðisvísinda, hafi tekist illa á við faraldurinn. „Ég held að það hafi með bandarískt samfélag að gera. Þetta eru sambandsríki og þeim skorti góða miðstýringu,“ sagði hann. Á Íslandi sé frekar skortur á réttu tækjunum (e. resourches) til þess að takast á við faraldurinn.

Ferill Kára er rakinn í greininni og Kári spurður um áhuga á taugalækningum en í lokin er farið yfir Wikipediu-síðu um Kára, þar sem kennir ýmissa grasa, og samband dóttur hans og Dhani Harrison, sonar bítilsins George Harrison og í kjölfarið ritað: „Er hann einhvers konar þjóðhetja?“ Kári vildi ekki taka svo djúpt í árinni en undir lokin ítrekaði hann mikilvægi þess að kunna að meta góðar bókmenntir, til þess að ýta undir skapandi hugsun.

mbl.is