Stendur til að fjarlægja útgöngubannsákvæði

Ólafur Þór Gunnarsson (t.h.) segir ánægjulegt að samstaða hafi náðst …
Ólafur Þór Gunnarsson (t.h.) segir ánægjulegt að samstaða hafi náðst um breytingatillögurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Velferðarnefnd leggur til breytingar á sóttvarnalögum í níu töluliðum og meðal þeirra er tillaga um að fella út lagaheimild fyrir útgöngubanni. Ólafur Þór Gunnarsson, framsögumaður velferðarnefndar og þingmaður VG, segir alla nefndarmenn hafa fallist á tillögurnar en nokkrir hafi sett fyrirvara, sem þeir munu þá greina frá við afgreiðslu málsins á þingi.

„Það náðist ljómandi samstaða um þetta tiltölulega flókna mál, sem er gleðilegt,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann væntir þess að þingheimur muni taka vel í breytingarnar.

Nefndin lagði til breytingar í níu töluliðnum sem verða brátt aðgengilegar á vef þingsins en viðamesta breytingin var tillagan um brottfall lagaheimildar fyrir útgöngubanni og heimild fyrir skyldubólusetningu á landamærum.

Þá er lagt til að nánar verði skýrt hvað þurfi að liggja til grundvallar ákvörðun um að stöðva atvinnurekstur og loka einstaka stöðum. „Það þurfa að vera tilteknar forsendur til staðar og tiltekin hætta,“ útskýrir Ólafur.

Ráðherra skylt að veita þinginu skýrslu eftir tvo mánuði

Samkvæmt breytingatillögum nefndarinnar verður ráðherra skylt að veita Alþingi skýrslu um gang mála þegar tveir mánuðir eru liðnir af faraldri.

„Þetta er mikilvægt vegna þess að með skýrslugjöf til þingsins gefst þingmönnum færi á að ræða við ráðherra um gang mála. Við erum í raun að setja áskilnað um þetta í lögin og jafnframt erum við að útskýra að ráðherra geti sent nefndum þingsins – þarna er verið að setja áskilnað um að þetta þurfi að vera,“ segir hann.

Í lokin tekur Ólafur fram að nefndin leggi til að heildarendurskoðun á sóttvarnalögum fari fram. Breytingarnar sem um ræðir þarfnist frekari umræðu og umfjöllunar að svo stöddu.

mbl.is