Vilja fella brott lög um Kristnisjóð

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, þar …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, þar sem lagt er til að leggja niður Kristnisjóð vegna mismunandi túlkana á lögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram lagafrumvarp ásamt sjö öðrum þingmönnum úr þingflokki Viðreisnar, Pírata og VG, þess efnis að fella brott lög nr. 35/1970 um Kristnisjóð.

Þannig yrði sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna ekki lengur skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.

Í greinargerð frumvarpsins segir að lögin nefni ekki sérstaklega kirkjur þjóðkirkjunnar heldur kirkjur almennt og því verði ekki séð að 62. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um vernd og stuðning íslensku þjóðkirkjunnar,  renni stoðum undir lög Kristnisjóð, þótt atriðið sé umdeilt.

Reykjavíkurborg geri ekki upp á milli tilbeiðsluhúsa

„Þá eru nýleg dæmi þess að sveitarfélög hafi litið svo á að á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar [62. gr.] beri þeim einnig að leggja til ókeypis lóðir undir sambærilegt húsnæði annarra skráðra trúfélaga og undanskilja þær gatnagerðargjaldi, þó svo að lög um Kristnisjóð o.fl. vísi til hinnar íslensku þjóðkirkju.“ segir í greinargerð.

Þar er bent á að Reykjavíkurborg hafi ekki gert upp á milli trúfélaga þegar kemur að úthlutun ókeypis líða undir tilbeiðsluhús.

Telja flutningsmenn frumvarpsins óljóst hvernig túlka eigi lög um Kristnisjóð til hliðsjónar friðhelgi þjóðkirkjunnar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, og því sé réttast að fella lögin brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert