Áhyggjuefni hve andskynsemi er útbreidd

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, telur að fræðasamfélagið hafi opnast og bætt sig í að koma upplýsingum byggðum á rannsóknum framfæri til almennings. Það sé óháð því hvernig röngum eða misvísandi upplýsingum sé komið á framfæri í auknum mæli. 

Í Bandaríkjunum hefur vantraust í garð vísindasamfélagsins aldrei verið meira. Er það ekki síst vegna stjórnmálamanna sem sagðir eru gera lítið úr fræðasamfélaginu ef niðurstöður henta illa hinni pólitísku sýn viðkomandi. Þá hefur því verið haldið fram að seinleg viðbrögð Bandaríkjamann við Covid-19 faraldrinum eigi rætur sínar að rekja til þess undirliggjandi vantrausts sem fólk ber til yfirvalda. 

„Það er áhyggjuefni hversu útbreidd andskynsemi eða andupplýsingar er nú á tímum,“ segir Jón Atli og vísar þar til þeirra sem hafa hvata af því að dreifa röngum upplýsingum á framfæri. 

Raun vísinda: stofnun háskólans. Orti Dagur Sigurðarson.
Raun vísinda: stofnun háskólans. Orti Dagur Sigurðarson.

Fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki 

Hann segir t.a.m. að barátta gegn loftlagsvá minni á aðferðir tóbaksframleiðenda sem gerðu lítið úr niðurstöðum læknasamfélagsins um skaðsemi tóbaksreykinga á sínum tíma. Kemur það ofan í þá staðreynd að loftlagsváin er svo stórt vandamál að fólk á erfitt með að gera sér umfang vandast í hugarlund. 

Hann segir að það sé vissulega áskorun að koma upplýsingum úr vísindasamfélaginu á framfæri. „Þarna eru frjálsir og óháðir fjölmiðlar gríðarlega mikilvægir til að við komum áfram upplýsingum til almennings líkt og skólakerfið upp á vísindalæsi og gagnrýna hugsun,“ segir Jón Atli.

Líta beri til þríeykisins 

Spurður hvort að vísindamenn geri nægilega mikið til þess að koma upplýsingum á framfæri segir Jón Atli allan gang á því. Margt sé vel gert og að líta beri til þríeykisins sem hefur komið upplýsingum um Covid-19 sjúkdóminn fram með skilvirkum hætti. „Þar er verið að deila sérfræðiþekkingu úr heilbrigðisvísindum, raunvísindum, félagsvísindum og fleiri greinum, þar sem verið er að tala við almenning,“ segir Jón Atli.

Telur þú að hægt sé að gera meira í ætt við þetta til að koma vísindunum á framfæri?

„Já, Kári Stefánsson er gott dæmi um vísindamann sem stigið hefur inn í umræðuna hér,“ segir Jón Atli.

Jón Atli telur það til fyrirmyndar hvernig vísindum hefur verið …
Jón Atli telur það til fyrirmyndar hvernig vísindum hefur verið komið á framfæri á Covid-19 faraldurstímum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hvetja vísindamenn til að tala við almenning 

Er ekki þörf á fleiri vísindamönnum á vettvangi fjölmiðla?

„Jú ég held að það sé alltaf hægt að gera betur í þeim efnum. Það er kannski ekki eiginlegt vísindamönnum að flagga sínum niðurstöðum. En þá er það hlutverk stofnunar á borð við Háskóla Íslands að beita sér fyrir því að það sé gert. Það hefur verið í okkar stefnu að hvetja fólk til að kynna niðurstöður sínar á almannavettvangi, en líka að hvetja fólk að tala við almenning um sínar niðurstöður þegar þess er óskað,“ segir Jón Atli.

Hann segist meðvitaður um umræðu sem byggir á því að fræðasamfélagið snúist um vísindamenn sem séu að tala við vísindamenn. Hins vegar hafi á undanförnum árum fræðasamfélagið opnast með auknu aðgengi að vísindum og gögnum. „Þannig getur almeningur fengið aðgang að þessum gæðum án endurgjalds,“ segir Jón Atli.

Jón Atli segir að fólk sem starfi við rannsóknir við …
Jón Atli segir að fólk sem starfi við rannsóknir við Háskóla Íslands séu hvattir til að koma niðurstöðum sínum á framfæri. AFP

Aldrei mikilvægara að koma ritrýndu efni á framfæri 

Þá bendir hann á að tímarit á borð við Science og Nature séu mjög meðvituð um tengsl við sín við fjölmiðla.

„Þaðan fer allt beint í fjölmiðla. Vísindaheimurinn er opnari en á móti eru samfélagsmiðlarnir þannig að þar er hægt að deila einhverju sem ekki er satt. En við erum með þessi vísindalegu aðferðir sem eru mótvægi og með því að opna aðgengi að því þá er það í það minnsta tilraun vísindanna til þess að koma upplýsingum á framfæri. Ég myndi því segja að vísindin séu að mestu skilvirk í að koma sínu á framfæri en það verður alltaf þannig að þegar hlutirnir eru orðnir sérhæfðari þá verður erfiðara að komast inn í málin,“ segir Jón Atli.

Þannig að þú vilt meina að vísindin hafi opnast en að sama tíma hafi hlutir á borð við upplýsingaóreiða og rangar upplýsingar á samfélagsmiðlum færst í vöxt?

„Já og einmitt þess vegna hefur aldri verið mikilvægara að koma ritrýndu vísindaefni á framfæri,“ segir Jón Atli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert