Allt að átta árásir á stjórnmálaflokka

Skotgöt á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Skotgöt á skrifstofu Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið allt að átta tilkynningar sem sem ná til ársins 2019 um skemmdarverk eða eftir atvikum árásir á skrifstofuhúsnæði stjórnmálaflokka. Málið fór á herðar miðlægrar deildar lögreglu eftir að grunur vaknaði um að sami aðili gæti borið ábyrgð á öllum árásunum. 

Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eru 4-5 árásir þar sem einhvers konar skotvopn var notað staðfest. Hins vegar séu 2-3 eldri mál sem áður voru tilkynnt sem rúðubrot einnig til skoðunar og þá hvort mönnum hafi yfirsést að skotvopn hafi verið notað. 

Skrifstofur Sjálfstæðisflokks, Pírata, Viðreisnar og nú síðast Samfylkingar hafa orðið fyrir barðinu á árásunum. Eiga flokkarnir það sammerkt að vera með skrifstofur sínar utan við miðbæ Reykjavíkur. 

Miðlæg deild lögreglu er kominn með málið á sínar herðar.
Miðlæg deild lögreglu er kominn með málið á sínar herðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulögð brotastarfsemi 

„Þetta var allt rannsakað sem einangruð atvik en svo þegar menn fóru að skoða þetta út frá því að þetta væri sami aðili, þá er þetta orðið skipulagt og rannsakað sem skipulögð brotastarfsemi. Í framhaldinu fór þetta til miðlægu deildarinnar,“ segir Jóhannes Karl. 

„Það eru 4-5 mál þar sem skotför sáust á rúðunum en svo eru 2-3 önnur mál þar sem menn eru að velta því upp hvort mönnum hafi yfirsést það að skotvopn hafi verið notuð. Í þeim tilfellum var upphaflega gengið út frá því að um rúðubrot væri að ræða,“ segir Jóhann Karl. 

Hann segir að lögreglan hafi hingað til haft lítið sem ekkert af myndbrotum úr öryggismyndavélum til að nota við rannsókn málanna.

mbl.is