Áratugir án úrbóta í samgöngumálum „óásættanlegir“

Frá Siglufjarðarvegi.
Frá Siglufjarðarvegi. Ljósmynd/Vegagerðin

Bæjarráð Fjallabyggðar leggur á það ríka áherslu að nú þegar verði, með skýrum hætti, hafist handa við undirbúning framkvæmda sem nauðsynlegar eru til að leysa af hólmi, annars vegar veginn um Ólafsfjarðarmúla og hins vegar veginn um Almenninga.

Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Fjallabyggðar. Ólafsfjarðarvegi og Siglufjarðarvegi, tengingum bæjarins við aðra staði, hefur ítrekað verið lokað undanfarið vegna snjóflóða, snjóflóðahættu og ófærðar.

Elías Pét­urs­son, bæj­ar­stjóri Fjalla­byggðar, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að staðan væri óásættanleg í nútímasamfélagi.

Vegna lokana nú sem og ítrekaðra lokana á síðasta vetri vill bæjarráð Fjallabyggðar leggja á það ríka áherslu að nú þegar verði brugðist við af hálfu ríkisvaldsins, þess aðila sem ber ábyrgð á uppbyggingu og viðhaldi samgangna,“ segir í bókun bæjarráðs.

Það er með öllu óásættanlegt að fram undan séu, ef ekkert er að gert og áætlunum ekki breytt, áratugir án úrbóta í samgöngumálum sveitarfélagsins. Þar er vísað til fyrirliggjandi samgönguáætlunar og þess að ríkisvaldið hefur með áætluninni markað þá stefnu að einungis skuli unnið að einum jarðgöngum á hverjum tíma,“ segir þar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert