Bensín og olía heyri sögunni til

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Íslendingar hafa alla burði til að verða óháðir öðrum um orkuöflun og ná þannig fullu orkusjálfstæði. Við setjum stefnuna á að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust fyrst allra landa og a.m.k. ekki síðar en 2050. Það þýðir að bensín og olía heyri fortíðinni til en orkuna fáum við úr rafmagninu okkar og frá öðrum grænum orkugjöfum, eins og vetni. Þannig getum við uppfyllt orkuþörf samfélags framtíðarinnar á umhverfisvænan hátt,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á opnum fundi Landsvirkjunar um ný og græn orkutengd tækifæri í morgun. 

Hún fjallaði meðal annars um langtímaorkustefnu fyrir Ísland, sem kynnt var í október, og segir að hún feli í sér skýra sýn um sjálfbæra orkuframtíð.

„Orkustefnan var unnin í þverpólitískri sátt og í samstarfi við hagaðila, enda hafa allir áttað sig á mikilvægi þess að horfa til langrar framtíðar í orku- og umhverfismálum. Það er ánægjulegt að sjá að Landsvirkjun er vakandi fyrir spennandi tækifærum sem falla að orkustefnunni. Nú þegar nýtum við náttúruauðlindirnar fallvötn, vind og jarðvarma til vinnslu grænnar raforku. En við þurfum að undirbúa næstu skref til að tryggja full orkuskipti á landi, í hafi og á lofti.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að Ísland gæti leitt þróun í átt að jarðefnaeldsneytislausum heimi og orkufyrirtæki þjóðarinnar ætti að vera í fararbroddi á þeirri vegferð.

„Við byggjum auðvitað á sterkum grunni, því yfir 80% af frumorkunotkun Íslands eru sjálfbær. Á sama tíma þurfum við að leggja áherslu á að skapa ný tækifæri til nýtingar grænu orkunnar okkar. Ég tek undir með ráðherra að ný orkustefna, sem unnin er í breiðri og góðri sátt, er afskaplega mikilvæg,“ sagði Hörður. „Hún gefur fyrirheit um að stjórnvöld muni styðja við bakið á okkur inn í áratugi orkuskipta, með hreinni og grænni framtíð,“ er haft eftir honum í fréttatilkynningu.

Vala Valþórsdóttir viðskiptaþróunarstjóri Landsvirkjunar fjallaði um gagnaver sem eru afar orkufrek. Hún benti á að hér á landi stæði þeim til boða 100% endurnýjanleg orka, en þar að auki þyrftu þau minni orku en víða annars staðar vegna þessa kalda loftslags sem hér er. Spáð væri 9% vexti á ári hverju næstu árin í þessum iðnaði.

Dagný Jónsdóttir nýsköpunarstjóri sagði gríðarmikla aukningu í spurn eftir rafhlöðum, sem rekja mætti til örrar rafbílavæðingar í heiminum. Spáð væri að rafbílasala yrði 10 sinnum meiri árið 2030 en nú, sem jafnframt þýddi mikinn samdrátt í útblæstri. Dagný sagði mikil tækifæri fyrir Íslands í rafhlöðuframleiðslu, Landsvirkjun hefði þegar fengið fjölda fyrirspurna um málið og landið lægi vel við mörkuðum, jafnt í Norður-Ameríku sem Evrópu, að því er segir í tilkynningu.

Sigurður H. Markússon nýsköpunarstjóri sagði matvælakerfi heims komið að þolmörkum. Þessi stærsta iðngrein í heimi nýtti 37% alls gróðurlendis og 70% allrar ferskvatnsnotkunar heims væru vegna hennar. Matvælaframleiðsla framtíðar yrði hins vegar stýrt hátækniumhverfi. Hér væru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu og um leið yrði að horfa til útflutnings, rétt eins og gert væri í sjávarútvegi, enda íslenskur markaður of lítill til að framleiðslan borgaði sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert