Brutu lög og héldu dansleik

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Facebook-síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk ábendingu um dansleik í húsnæði við hlið veitingastaðar í miðborginni í gærkvöldi þar sem gestir fóru síðan inn á veitingastaðinn og báru áfengi og aðrar veitingar á milli. 

Um 25 einstaklingar voru kærðir fyrir brot á sóttvarnalögum á staðnum. Veitingastaðurinn ásamt ábyrgðarmanni fékk einnig kæru á sig fyrir brot á áfengislögum, það er að hafa borið áfengi út af veitingastað. Lögreglan sleit samkomunni og vísaði fólkinu út.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um eignaspjöll í verslun í Austurbænum (hverfi 108) en þar hafði hurð verið spennt upp baka til í húsinu. Tengiliður kom á vettvang og taldi engu hafa verið stolið.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir brot á umferðarlögum. Einn var undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda en hann hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri sviptur ökuréttindum. Einn var á ótryggðri bifreið og sá þriðji próflaus undir stýri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina