Ekki „á þeim sokkunum“ að heimila ritskoðun

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræddu bann við að afneita helförinni í umræðu um störf þingsins nú síðdegis. Björn Leví tók fyrstur til máls og sagðist vera þeirrar skoðunar að verra væri að banna skaðlega umræðu en að leyfa hana.

Snerist umræðan þá um hvort ekki skyti skökku við að banna orðræðu meðal þingmanna, þar sem helförinni er afneitað, á meðan slíkt er leyfilegt á opinberum vettvangi.

„Virðulegi forseti, ég hef óskað eftir því að eiga orðastað við háttvirtan þingmann, Brynjar Níelsson, um bann við að afneita helförinni, en eins og þingmenn og þjóð þekkja eflaust þá hefur slíkt mál verið lagt fram á þingi – bann og refsing við að segja heimskulega og jafnvel skaðlega hluti.

Liggur ekki hundurinn þar grafinn að slík umræða sé skaðleg? Það finnst sumum greinilega. En ég er hins vegar á þeim sokkunum að meðalið sé skaðlegra, bann við slíkri tjáningu sé skaðlegra,“ sagði Björn Leví.

Gildir ekki sama um þing og þjóð?

Björn Leví minnti svo á að forsætisnefnd hefði breytt reglum um meðferð þingerinda á þá leið að þar verði lagt blátt bann við orðræðu sem afneitar helförinni. Þær reglur voru upphaflega settar vegna þess að allsherjar- og menntamálanefnd barst umsögn þar sem finna mátti fullyrðingar um að helförin hefði ekki gerst. Á þessu lýsir Björn Leví furðu sinni.

Brynjar Níelsson á sæti í forsætisnefnd þingsins og spyr Björn Leví hvers vegna Brynjar hafi samþykkt þessa breytingu forsætisnefndar en sé síðan vera andvígur frumvarpi sem er efnislega sambærilegt.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar svaraði á þá leið að honum þætti þetta ekki sambærilegt, frumvarpið og meðferð forsætisnefndar.

„Það er mikill munur á því þegar ríkisvaldið, sem hefur þvingun, ætlar að beita refsingu til að koma í veg fyrir eitthvað sem hugsanlega gæti verið skaðlegt, einhver tjáning,“ svaraði Brynjar.

Brynjar sagðist ekki vilja beita þvingunarvaldi ríkisins gegn þeim sem viðhafa orðræðu sem mögulega getur talist skaðleg. Hann segir þó vel hægt fyrir þingmenn að koma sér saman um hvers konar orðræða skuli viðhöfð þeirra á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert