Fjögur smit innanlands í gær

Alls greindust fjögur kórónuveirusmit innanlands í gær. Þrír greindust við einkennasýnatöku en einn í sóttkvíarskimun. Þeir voru allir í sóttkví en síðast greindist einstaklingur utan sóttkvíar innanlands 20. janúar. Tæplega 1.100 sýni voru tekin innanlands í gær og 272 á landamærunum.

Þrjú virk smit greindust við fyrri sýnatöku á landamærunum í gær en tveir reyndust vera með mótefni. Einn bíður niðurstöðu mótefnamælingar.

Nú eru 56 í einangrun en 46 í sóttkví. Mjög hefur fjölgað í skimunarsóttkví á milli daga. Þeir eru nú 1.088 talsins en voru 842 í gær. Nýgengi smita innanlands er nú orðið hærra en smit á landamærunum miðað við 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Innanlands er nýgengið 8,7 en 8,5 á landamærunum.

Níu börn eru með virkt Covid-19-smit og bættist barn á fyrsta ári í þann hóp frá því í gær. Flest eru smitin í aldurshópnum 18-29 ára eða 17. 

Líkt og undanfarna daga eru öll smitin í fjórum landshlutum. Flest á höfuðborgarsvæðinu eða 40. Sami fjöldi er í sóttkví á höfuðborgarsvæðinu. Eins eru smit á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi.

Sextán eru á sjúkrahúsi en fæstir þeirra eru með virkt smit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert