Fyrsta bólusetningarvottorði framvísað í gær

Á Keflavíkurflugvelli er einnig tekið við mótefnavottorðum, en alls hafa …
Á Keflavíkurflugvelli er einnig tekið við mótefnavottorðum, en alls hafa 402 slík vottorð verið samþykkt af lögregluþjónum og landamæravörðum á Keflavíkurflugvelli frá áramótum. Morgunblaðið/Íris

Lögreglan í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum tók við bólusetningarvottorði frá farþega sem kom til landsins í gær, því fyrsta síðan bólusetningar gegn kórónuveirunni hófust.

Þetta staðfestir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeildinni, í samtali við mbl.is.

Bólusetningarvottorðið kom frá Danmörku, en eins og fjallað hefur verið um gengur bólusetning rösklega í Danmörku. Þar hafa 183.606 hafið bólusetningarferlið, eða 3,15% dönsku þjóðarinnar, og 32.522 fengið síðari skammtinn, eða 0,52%.

402 vottorð samþykkt en 59 hafnað

Á Keflavíkurflugvelli er einnig tekið við mótefnavottorðum, en alls hafa 402 slík vottorð verið samþykkt af lögregluþjónum og landamæravörðum á Keflavíkurflugvelli frá áramótum. Alls hefur 59 vottorðum verið hafnað, þá ýmist á grundvelli tungumáls, en aðeins er tekið við vottorðum á íslensku, ensku og Norðurlandamálunum, utan finnsku, eða þá að þau hafa verið gefin út utan evrópska efnahagssvæðisins. Þá hefur vottorðum um neikvætt kórónuveirupróf verið hafnað.

Vart hefur orðið við það að fólk reyni að framvísa fölsuðum vottorðum erlendis, en Sigurgeir segir að ekki hafi orðið vart við slíkt á Keflavíkurflugvelli. Hann segir lögregluþjóna þaulvana því að skoða skilríki með tilliti til fölsunar. Auk þess telur hann það varla áhættunnar virði að framvísa fölsuðu vottorði þar sem ókeypis sýnataka sé í boði á landamærum Íslands.

Sigurgeir Sigmundsson.
Sigurgeir Sigmundsson. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert