Gott að sjá hve mörg sýni hafa verið tekin

„Ég veit ekki hvort það hefur verið útaf því eða …
„Ég veit ekki hvort það hefur verið útaf því eða hvað en allavega er gott að sjá hve mörg sýni hafa verið tekin innanlands, ég er bara ánægður með það,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. Ljósmynd/Almannavarnir

Sóttvarnalæknir er ánægður með það hve mörg sýni hafa verið tekin innanlands síðustu tvo sólarhringa. Þórólfur Guðnason impraði á því hve mikilvægt væri að fólk mætti í sýnatöku á upplýsingafundi á mánudag, og síðan hefur fjöldi einkennasýna nánast tvöfaldast miðað við þann fjölda sem tekinn var síðustu þrjá daga fyrir fundinn.

„Ég veit ekki hvort það hefur verið útaf því eða hvað en allavega er gott að sjá hve mörg sýni hafa verið tekin innanlands, ég er bara ánægður með það,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Þannig voru 1.063 einkennasýni tekin í gær og 993 daginn áður. Dagana þrjá á undan höfðu einkennasýni aðeins talið 457, 388 og 491.

Fjórir greindust innanlands síðasta sólarhring og voru allir í sóttkví og tveir greindust innanlands daginn áður og voru báðir í sóttkví. „Tölurnar eru bara ágætar, þetta voru fjórir í gær og allir í sóttkví og þetta er bara á svipuðum nótum og verið hefur myndi ég segja,“ segir Þórólfur.

„En þó veiran sé ekki að greinast í miklu magni utan sóttkvíar þá þarf ekkert voðalega mikið útaf að bregða til þess að eitthvað gerist, sérstaklega hefur maður aðeins áhyggjur af þessu breska afbrigði sem hefur verið að greinast á landamærum, sem betur fer hefur það ekki verið að breiða úr sér, en hin Norðurlöndin eru að sjá mjög hraða útbreiðslu af því afbrigði.“

mbl.is