Hefur áhyggjur af þróun íslensks fjölmiðlamarkaðar

Sýn rekur Stöð 2.
Sýn rekur Stöð 2. mbl.is/Hari

Samband norrænna blaðamannafélaga NJF (Nordisk Journalistforbund) lýsir yfir áhyggjum af þróuninni sem er að verða á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Þróunin var tekin til ítarlegrar umræðu á stafrænum fundi Sambands norrænu blaðamannafélaganna í gær, þriðjudaginn 26. janúar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu NJF sem birtist á vef Blaðamannafélags Íslands í dag.

Í yfirlýsingunni segir að Stöð 2 hafi í 34 ár flutt almenningi á Íslandi sjónvarpsfréttir í opinni dagskrá en nú séu þær aðeins aðgengilegar áskrifendum. Fyrir verulegan hluta Íslendinga sé ríkisútvarpið RÚV því eini valkosturinn hvað fréttir í sjónvarpi varðar.

Sambandið gerir ekki athugasemdir við þær viðskiptaákvarðanir sem Sýn hefur tekið en hefur áhyggjur af neikvæðum áhrifum þeirra á fjölræði fjölmiðla á Íslandi, sem muni óumflýjanlega ógna fjölbreytileika til framtíðar.

„Fjölskipt og fjölbreytt fjölmiðlakerfi á Norðurlöndum og í Norður- og Vestur-Evrópu er mikilvægur þáttur í að efla lýðræði í þessum löndum. Það er því æskilegt og eðlilegt að stjórnvöld og lýðræðislegar stofnanir á Íslandi setji í forgang að standa vörð um slík grundvallarkerfi þegar fjölmiðlalandslagið er þróað framtíðinni,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Undir yfirlýsinguna skrifa Ulrika Hyllert, formaður Samtaka sænskra blaðamanna, Tine Johansen, formaður Danska blaðamannafélagsins, Hanne Aho, forseti Samtaka finnskra blaðamanna, Hege Iren Frantzen, formaður Samtaka norskra blaðamanna, og Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.

mbl.is