Óska eftir afstöðu Lilju til reksturs spilakassa

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hari

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa sent Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, opið bréf þar sem óskað er eftir afstöðu ráðherrans til reksturs spilakassa í fjáröflunarskyni fyrir Háskóla Íslands.

Þá er einnig óskað eftir viðbrögðum Lilju við ummælum, annars vegar forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, og hins vegar dómsmálaráðherra, um ábyrgð menntamálaráðherra í þessu málaflokki.

Í bréfinu er vísað til orða Bryndísar Hrafnkelsdóttur, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, í fréttaskýringaþættinum Kompási þann 1. desember 2020 þar sem hún sagði rekstur spilakassa ákvörðun stjórnvalda, menntamálaráðuneytis og að það væri lögbundið hlutverk HHÍ að standa að rekstri spilakassa til að fjármagna byggingar Háskóla Íslands.

„Í orðum forstjórans lá að ábyrgðin væri stjórnvalda og menntamálaráðherra sérstaklega,“ segir í bréfinu.

Þá var í bréfinu einnig vísað í viðtal kvöldfrétta Stöðvar tvö frá 9. desember 2020 þar sem dómsmálaráðherra sagði að ef HHÍ vildi hætta rekstri spilakassa þá væri það á ábyrgð menntamálaráðherra.

„Framangreind ummæli hafa komið fram opinberlega og er mælst til að menntamálaráðherra svari þeim einnig opinberlega,“ segir í bréfinu. Þar er einnig vísað til skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Samtök áhugafólks um spilafíkn þar sem fram kom að mikill meirihluti almennings sé neikvæður gagnvart því að fjármagna starfsemi í almannaþágu með spilakössum.

Bréfið í heild sinni má finna í viðhengi með fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert