Óttast að hús brotni eða endi úti í sjó

Stór sprunga hefur myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins.
Stór sprunga hefur myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins. Facebook-síða lögreglunnar á Norðurlandi vestra

„Þetta lítur ekki vel út,“ segir Valgeir Þorvaldsson, forstöðumaður Vesturfarasetursins á Hofsósi, við mbl.is. Lög­regl­an hef­ur ákveðið í sam­ráði við of­an­flóðavakt Veður­stofu Íslands að loka hafn­ar­svæðinu á Hofsósi vegna snjóflóðahættu.

„Það er ekki mikið hægt að gera í stöðunni,“ segir Valgeir. Mynd­ast hef­ur stór sprunga í snjóa­lög ofan við hús­næði Vest­urfara­set­urs­ins en hún er hátt í 50 metra löng og talið er að hún geti verið á milli fimm og sex metrar á dýpt þar sem hún er dýpst.

„Það er risastór hengja sem er þarna ofan við eitt af húsunum og komin stór sprunga efst í snjóinn í brekunni sem er vísbending um að snjórinn er að skríða fram. Við vonum að það stöðvist eða haldi ekki áfram,“ segir Valgeir.

Hann segir engar byggingar standa af sér viðlíka snjóþunga og þarna er um að ræða.

„Ef þetta fer á hús þá brotnar það eða færist jafnvel út í sjó ef þetta kemur af öllu afli niður.“

Valgeir segir fólk einfaldlega krossa fingur og vona það besta en öll starfsemi Vesturfarasetursins liggur niðri á meðan hætta er á snjóflóði.

Við höfnina á Hofsósi.
Við höfnina á Hofsósi. mbl.is/Sigurður Bogi
Valgeir Þorvaldsson stýrir Vesturfarasetrinu á Hofsósi
Valgeir Þorvaldsson stýrir Vesturfarasetrinu á Hofsósi Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert