Tæknideild lokið vettvangsrannsókn

Sundhöll Reykjavíkur
Sundhöll Reykjavíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið vettvangsrannsókn vegna andláts 31 árs gamals manns í Sundhöll Reykjavíkur síðastliðinn fimmtudag. Lögregla mun fara yfir gögn á næstu vikum og tilkynna orsök andlátsins eftir að búið er að fara yfir málið með aðstandendum mannsins. 

„Við munum gefa út tilkynningu þegar rannsókn lýkur,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Spurður hvort lögregla sé búin að fara yfir öryggismyndavélar vildi Jóhann ekkert tjá sig um það en sagði að búið væri að afla allra gagna í málinu.

Málið var upphaflega til rannsóknar hjá miðlægri deild lögreglunnar en fór svo á herðar stöðvar 1 hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is