Uglan eignast litla systur

Ugla Háskóla Íslands gleður nemendur á degi hverjum með því …
Ugla Háskóla Íslands gleður nemendur á degi hverjum með því að klæða og skreyta sig eftir tíðaranda hverju sinni. Hér sést Uglan í bóndadagslopapeysu og með öldungadeildarþingmanninn og fyrrverandi forsetaframbjóðandan Bernie Sanders í bakgrunn. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Ugla, innri vefur Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Hólum, hefur eignast litla systur í formi smáforrits. SmáUglan, eins og hún hefur verið nefnd, varð aðgengileg starfsfólki og nemendum háskólans í gær.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að notendur SmáUglunnar geti lagað smáforritið að eigin þörfum með því að breyta upphafsskjá og flýtileiðum og þannig valið þá möguleika sem þeir nota mest. Þá sé SmáUglan að sjálfsögðu tvítyngd eins og stóra systir hennar.

Meðal annarra nýjunga í appinu er „dagur“ hvers notanda sem hefur að geyma yfirlit yfir allar kennslustundir, próf, fundi og viðburði hvern dag. Dagurinn breytist svo í vikuyfirlit þegar símanum er hallað á hlið. Þá geta notendur fylgst með því sem er að gerast í skólanum gegnum fréttir og tilkynningar, séð hvað er í matinn í Hámu ef hungrið sverfur að og hvað Uglan segir á hverjum degi. Nemendur geta enn fremur skoðað öll sín námskeið og lokaeinkunnir í SmáUglunni og starfsfólk stimplað sig inn og út. Notendur skrá sig aðeins einu sinni inn í appið og eru eftir það ávallt með SmáUgluna tilbúna í vasanum.

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert