Vilji fyrir hendi en peninga skortir

Banaslys varð í Sundhöll Reykjavíkur fyrir réttri viku.
Banaslys varð í Sundhöll Reykjavíkur fyrir réttri viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það skortir ekki vilja heldur fjármagn þegar kemur að fræðslu og úrbótum í málefnum sundbjörgunar að mati Hafþórs B. Guðmundssonar, lektors í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands.

Hann segir að á sínum ferli hafi hann oft reynt að vekja athygli á mikilvægi sundbjörgunar og að hið opinbera sé alltaf til í að hlusta, en svo dagi málin oft uppi án nokkurra úrbóta. Þessi mál eru á forræði umhverfisráðuneytisins og að sögn Hafþórs hefur ráðuneytið ekki haldið námskeið um sundbjörgun í um áratug.

„Það vantar bara peninga,“ segir Hafþór við mbl.is.

„Við erum ákveðinn hópur sem höfum verið að berjast í þessu frá því um 2011. Við höfum gert ýmsar tilraunir, fórum og hittum ráðherra fyrir einhverjum árum sem tók okkur vel en síðan gerðist ekkert. Svo hef ég verið í sambandi við nokkra sérfræðinga hjá Umhverfisstofnun – yfirleitt er mikill skilningur og jákvæðni, en engir peningar.“

Hafþór B. Guðmundsson.
Hafþór B. Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Starf sundlaugarvarðar að vera alltaf á varðbergi

Hafþór segist ekki vilja tjá sig um banaslysið sem varð í Sundhöll Reykjavíkur fyrir réttri viku, þegar maður lést eftir að hafa legið á botni sundlaugar í um sex mínútur. Hafþór hafi oft setið á sér þegar álíka fréttir berast en nú hafi honum misboðið.

„Ég get ekki farið að tjá mig um það,“ segir Hafþór spurður um hvar ábyrgðin á slysinu í Sundhöllinni liggur.

„Ég tel mig þó vita að forstöðumenn allra sundlauga geri allt hvað þeir geta til þess að hafa sitt á hreinu. Sem kennari til dæmis, reynir maður sífellt að brýna fyrir nemendum að starf þeirra sem sundlaugaverðir sé að vera með athyglina á sundgestunum allan tímann. Án þess að alhæfa neitt um alla sundverði þá vitum við alveg til þess að einhverjir hafa komist í símann eða á Facebook eða eitthvað slíkt, sem er auðvitað alls ekkert í lagi.“

Þekkingin í stöðugri endurnýjun

Að sögn Hafþórs eru viðurkenndar venjur í sundbjörgun fljótar að breytast. Hann býr svo vel að vera kennari og hefur því aðgang að vettvangi þar sem nýjustu aðferðirnar í sundbjörgun eru ræddar. Forstöðumenn sundlauga og sundlaugaverðir eru ekki allir svo heppnir.

„Við sem erum að leiðbeina í þessu erum mög hver orðin úreld, nema helst þá kannski þeir sem eru í háskólunum að kenna. Við erum í góðu sambandi við samtök í Evrópu og á Norðurlöndunum sem láta sig þessi mál varða.“

„Ráðuneytið hefur bara ekki haldið námskeið í þessu í einhver ár, þó að það hafi komið út ansi góðar leiðbeiningar fyrir ekki svo löngu. En þekkingin er alltaf að breytast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert