Ævintýralegt fannfergi

Stórtækar vinnuvélar eru notaðar til að koma snjónum út í …
Stórtækar vinnuvélar eru notaðar til að koma snjónum út í sjó á Hofsósi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar það er norðaustanátt þá skefur þetta fram af,“ segir Guðrún Þorvaldsdóttir í samtali við mbl.is. Hún og eiginmaður hennar, Valgeir Þorvaldsson, reka Vest­urfara­set­rið við höfnina á Hofsósi en rýma þurfti hafn­ar­svæðið vegna snjóflóðahættu aðfaranótt miðviku­dags.

Stór snjóhengja fyrir ofan hús Vesturfarasetursins var brytjuð niður í gærkvöldi og hefur hættuástandi verið aflýst. Guðrún vonast til að mega fara aftur á svæðið á morgun – þegar búið verður að koma allri hengjunni niður.

Frábært að láta vita

Hún segir þetta í annað skiptið sem álíka gerist síðan þau hjónin tóku við Vesturfarasetrinu og bendir á að í norðaustanáttinni eigi þetta til að gerast í þorpinu.

Hús Vesturfaraseturs hafa verið lokuð í tvo daga en vonir standa til að þangað megi snúa aftur á morgun. „Bara þegar vélarnar eru búnar að koma þessu frá sér út í sjó. Þetta er ótrúlegt magn, ævintýralegt eiginlega,“ segir Guðrún.

Ungur strákur í þorpinu sá sprunguna og lét vita af henni. Guðrún tekur fram að það sé algjörlega frábært að hafa svona krakka sem taka eftir þegar hlutir eru ekki eins og þeir eiga að vera og láta vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert