Lýsa yfir óvissustigi vegna flóðahættu

Hætta á krapaflóðum er því enn fyrir hendi og munu …
Hætta á krapaflóðum er því enn fyrir hendi og munu lögreglan og Vegagerðin stjórna umferð um veginn á meðan svo er. Ljósmynd/Aðsend

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, hefur ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna krapastíflu og flóðahættu í Jökulsá á Fjöllum, á milli Mývatnssveitar og Egilsstaða.

Mikið krapaflóð varð 26. janúar í ánni með þeim afleiðingum að krapi flæddi yfir þjóðveginn og lokaði honum. Vegagerðin hefur hreinsað af veginum, en vatnsstaða Jökulsár er nú svipuð há og rétt fyrir krapaflóðið, eða um fimm metrar.

Áfram má búast mið miklum kulda á Norðurlandi og vísbendingar eru um að krapi og ís sé farinn að safnast fyrir á ný. Hætta á krapaflóðum er því enn fyrir hendi og munu lögreglan og Vegagerðin stjórna umferð um veginn á meðan svo er.

Vegurinn verður opinn í dag  og næstu fjóra daga frá kl. 09:00 til kl. 18:00, en lokaður utan þess tíma. Á meðan vegurinn er opinn verður umferð stýrt um þennan vegakafla og yfir brúna. Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á mánudag.

Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert