Máli Jóns Baldvins vísað aftur frá héraðsdómi

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá ákæru á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir meint kynferðisbrot frá dómi öðru sinni. Málinu var fyrst vísað frá dómi 7. janúar en Landsréttur ómerkti þann úrskurð og vísaði málinu aftur til héraðsdóms til meðferðar.

Héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu og áður en embætti héraðssaksóknara hefur nú þegar kært úrskurðinn til Landsréttar.

Carmen Jóhannsdóttir kærði Jón Baldvin fyrir kynferðisbrot en hún sagði ráðherrann fyrverandi hafa strokið henni utanklæða og niður eftir rassi hennar þegar hún var gestkomandi á heimili hans á Spáni fyrir þremur árum.

Mál ákæruvaldsins byggðist á því að meint háttsemi Jóns Baldvins væri refsiverð samkvæmt spænsku lagaákvæði og það ákvæði sé sambærilegt ákvæði í íslenskum hegningarlögum.

Dómurinn féllst ekki á að lagaákvæðin væru sambærileg og taldi ákæruvaldið ekki hafa sýnt fram á það. Ákæruvaldið gat að mati dómsins ekki sýnt fram á dæmi úr spænskri dómaframkvæmd þar sem dæmt var fyrir svipuð málsatvik og þau sem ákært var fyrir í máli Jóns Baldvins.

Þá lá ekki fyrir gild yfirlýsing frá spænskum yfirvöldum með staðfestingu á því að háttsemin í ákæru sé refsiverð samkvæmt spænskum lögum.

Ákærða beri að njóta vafans

„Að mati dómsins er útilokað eða a.m.k. verulegur vafi á því að spænska lagagreinin eigi við um háttsemina sem ákærða er gefin að sök. Þótt þessi annmarki kunni að varða efnishlið málsins þykir hann einnig varða grundvöll ákærunnar þannig að varðað geti frávísun. Þar sem ekki liggur fyrir gild yfirlýsing frá þar til bærum spænskum yfirvöldum um að háttsemin sem í ákæru greinir sé refsiverð eftir spænskum lögum og þar sem lagagreinin sem byggt er á að þessu leyti getur tæpast átt við um háttsemina sem í ákæru greinir er það mat dómsins að ákærða beri að njóta vafans um þetta og beri því að taka kröfu hans til greina og vísa málinu frá dómi,“ segir í dómsorði.

Ríkissjóði var gert að greiða málsvarnarlaun verjanda Jóns Baldvins, Vilhjáms Hans Vilhjálmssonar, að fjárhæð 988.280 krónur.

Uppfært kl. 10:51: Úrskurður héraðsdóms hefur verið kærður til Landsréttar.

mbl.is