Saka Kristján Oddsson um lygar

Kristján Oddson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg. …
Kristján Oddson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg. Hann er einnig fyrrum forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Krabbameinsfélag Íslands gagnrýnir harðlega málflutning Kristjáns Oddssonar, sviðsstjóra á heilsugæslunni í Kópavogi og verkefnastjóra yfir málefnum greininga á leghálssýnum fyrir heilsugæsluna. Er hann sagður hafa farið vísvitandi með lygar til þess að koma óorði á Krabbameinsfélagið í tengslum við um tvö þúsund uppsöfnuð sýni sem sagt var frá í fréttum Stöðvar 2 þann 15. janúar.

Í frétt á vef Vísis sem birtist í gær segir Kristján enn fremur að þær tvö þúsund konur sem leghálssýnin voru tekin úr þurfi að koma aftur í sýnatöku. Segir hann ástæðuna þá að Krabbameinsfélagið hafi ekki gengið nægilega vel frá sýnunum og að þau hafi verið í stærri glösum en þeim bar.

Fyrir vikið geti dönsk rannsóknarstofa, sem nýlega var gerður skammtímasamningur við, ekki greint sýnin. Auk þess sem félagið er gagnrýnt fyrir að hafa ekki sent sýnin til greiningar innanlands.  

Einbeittur brotavilji 

Í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla kemur m.a. fram í máli Björns Teitssonar, upplýsingafulltrúa KÍ, að í fréttinni sem birtist á vef Vísis hafi Kristján verið „með svo miklar og forkastanlegar lygar, vísvitandi lygar með einbeittum brotavilja, að ekki verður hjá því komist að segja frá“.

Krabbameinsfélagið er ósátt við framgöngu Kristjáns í málinu.
Krabbameinsfélagið er ósátt við framgöngu Kristjáns í málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Þá segir þar að sýni sem búið var að taka hjá Krabbameinsfélaginu áður en greining á leghálssýnunum var færð á herðar heilsugæslunnar hafi þau verið send til Heilsugæslunnar í Hamraborg, sem er starfsstöð Kristjáns, í þeirri trú að þau yrðu rannsökuð hið fyrsta.

Fengu engin tilmæli 

Samkvæmt upplýsingum frá Höllu Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóra KÍ voru umrædd tvö þúsund sýni tekin á tímabilinu 9. nóvember til 30. nóvember í fyrra. Voru þau svo afhent um áramót í samræmi við samkomulag við heilbrigðisyfirvöld. Tilmæli um frágang til Krabbameinsfélagsins voru engin að sögn Höllu.

„Leitarstöðin fékk engar leiðbeiningar um það hvernig ganga ætti frá málum. Við fengum eingöngu þær upplýsingar að forræði Leitarstöðvar á greiningu sýnanna ætti að fara frá okkur. Við reyndum að hafa svo upp á því hvaða rannsóknarstofa ætti að taka við en fengum engin svör. Eingöngu fengum við þær upplýsingar að ný rannsóknarstofa ætti að taka við greiningu sýnanna um áramót," segir Halla.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Voru sýnin svo send á heilsugæsluna í Hamraborg þar sem Kristján Oddsson starfar.

Í fréttinni á vef Vísis segir Kristján það óskiljanlegt að Krabbameinsfélagið hafi ekki látið greina sýnin hér á landi. Það hefði verið eðlilegast að KÍ hefði greint sýnin sem tekin voru hjá þeim.

Kristján að búa til eitthvað mál með glösin

Í yfirlýsingu KÍ segir að Ingibergur Erlingsson, söluaðili heilbrigðistækja, hafi staðfest að Kristján hafi sjálfur áður fyrr notað sambærileg sýnaglös og KÍ notaði. Hann þekki því sýnaglösin vel.

Ingibergur segir í samtali við mbl.is að það sé afbökun á málinu að kenna KÍ um að sýnin séu ónothæf.

„Vandamálið er ekki það að glösin hafi verið of stór, heldur valdi Kristján rannsóknarstofu sem ekki er fær um að rannsaka svokölluð „thin prep“ glös. Eru það sýnaglös sem er algengast að notuð séu í heiminum. Enn fremur hringdi ég í Kristján í byrjun nóvember og tilkynnti honum um að hann hefði einungis sex vikur til þess að láta greina sýnin í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda sýnaglasanna.

Hugmynd mín var að reyna að koma í veg fyrir þá stöðu sem nú er komin upp. Fyrir mér virðist Kristján vera að reyna að búa til eitthvað mál með að glösin þegar vandinn liggur í því að sýnin eru of gömul," segir Ingibergur í samtali við mbl.is.

Spurður tekur hann fyrir það að hafa nokkurra hagsmuna að gæta og vill einungis koma því á framfæri sem sannara reynist. 

Telja Kristján bera ábyrgð

„Staðreynd málsins er einfaldlega sú að þessi sýni misfórust í höndum Kristjáns Oddsonar. Þrátt fyrir að hafa haft nægan tíma til umráða til að a) semja við nýjan aðila erlendis en ekki láta það dragast um margar vikur, b) fengið innlendan aðila til að skoða sýnin undir eins, sem hefði verið léttilega hægt,“ segir í yfirlýsingu frá KÍ. 

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Krabbameinsfélags Íslands.
Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert