Fá líklega leyfi hérlendis í dag eða á morgun

AstraZenca hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla.
AstraZenca hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla. AFP

Að því gefnu að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) veiti bóluefni AstraZeneca við kórónuveirunni skilyrt markaðsleyfi má ætla að það verði gert í kjölfarið hér á landi nokkuð fljótlega. Forstjóri Lyfjastofnunar segir að náist það ekki í dag verði það vonandi gert á morgun. Blaðamannafundur EMA um markaðsleyfi AstraZeneca hefst í dag klukkan 14.

„Ég veit ekki hvort það náist í dag,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, um veitingu markaðsleyfis hér á landi í dag.

„Það er fólk á vakt hjá okkur í dag og fram á kvöld. Ef þetta næst ekki í dag þá verðum við að halda áfram á morgun. Þetta fer allt eftir því hvaða upplýsingar koma frá Lyfjastofnun Evrópu og hvenær, það eru þær tímasetningar sem við erum að vinna með. Blaðamannafundur Lyfjastofnunar Evrópu hefst núna klukkan tvö.“

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Ljósmynd/Almannavarnir

Hvað með fólk 65+?

Í gær var greint frá því að bólusetningarráð í Þýskalandi hafi ráðið gegn því að bóluefni AstraZeneca væri veitt fólki eldra en 65 ára. Að sögn ráðsins er virkni þess minni hjá þeim aldurshópi, eitthvað sem þýskir fjölmiðlar höfðu greint frá og jafnvel sagt virkni AstraZeneca-bóluefnisins ekki nema um 10%.

Þessu mótmæltu heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi þó og sögðu ekkert benda til þess að virkni bóluefnis AstraZeneca væri minni hjá eldra fólki. Rúna tekur í sama streng og segir að ekkert bendi til þess að virknin sé minni.

„Það er ekki gert ráð fyrir aldurstakmörkum nema þá bara fyrir undir 18 ára. Það er ekkert sem bendir til þess að virknin sé minni hjá fólki eldra en 65 ára,“ segir Rúna við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert