Allt væri vitlaust í þjóðfélaginu

Það er leikur að læra.
Það er leikur að læra. Eggert Jóhannesson

„Íslenskt skólakerfi er að mörgu leyti lotterí. Það skiptir til dæmis höfuðmáli hjá hvaða kennurum barnið lendir. Sum eru heppin, önnur óheppin. Þess utan virðist vera alltof lítill sveigjanleiki innan kerfisins. Stúlkunum líður illa vegna þess að enginn tekur eftir þeim, meðan strákarnir verða pirraðir og háværir. Hér er ég auðvitað að alhæfa; mörgum strákum gengur vel í skóla, líður vel og ljúka sínu prófi, en þú skilur hvað ég er að fara? Væri staðan þveröfug, að stúlkunum gengi verr en drengjunum, þá væri allt vitlaust í þjóðfélaginu. Allt vitlaust.“

Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, en hún lagði í vikunni fram tillögu til þingsályktunar sem snýr að árangri og þátttöku drengja í skólakerfinu. Þar segir meðal annars: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun, til fjögurra ára, fyrir árin 2022-2025, til að styrkja stöðu drengja í menntakerfinu. Mennta- og menningarmálaráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á haustþingi 2021.“

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir.


Árið 1975 var kynjahlutfall þeirra sem luku stúdentsprófi á Íslandi jafnt en árið 2018 voru konur orðnar 60%. Þegar tölur um þá sem ljúka háskólanámi eru skoðaðar eykst munurinn. Árið 1973 voru 76% þeirra sem luku háskólaprófi karlmenn. Árið 1985 var hlutfall kynjanna jafnt en í dag er staðan hins vegar sú að 34% þeirra sem ljúka háskólaprófi eru karlmenn. Fátt bendir til annars en að þessi þróun haldi áfram, nema gripið verði í taumana.

Lestur vegur þungt í þessu sambandi og alþjóðlega PISA-könnunin, sem lögð var fyrir 15 ára nemendur vorið 2018, sýnir fram á að hlutfall nemenda á Íslandi sem ekki ná grunnhæfni í lesskilningi eykst úr 22% í 26% milli kannana. Hjá drengjum eykst hlutfallið úr 29% í 34%. Við erum að tala um að þriðji hver drengur á Íslandi geti ekki lesið sér til gagns að lokinni grunnskólagöngu.

Helga Vala segir tilefni þingsályktunartillögunnar þá tölfræði sem blasi við okkur og vísað er til hér að framan. Augljóst sé að bregðast þurfi við ef ekki eigi illa að fara. „Ójafnvægi af þessu tagi mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar til lengri tíma litið og leiða til samfélagslegrar skekkju þegar konur verða svona langtum menntaðri en karlar. Við erum jafnréttisþjóðfélag og eigum að vita betur. Þess vegna verðum við að grípa inn í núna,“ segir hún.

Helga Vala segir marga finna hvernig skólakerfið sé útbúið þannig að það virðist henta stúlkum alla jafna betur en drengjum. Eigi að síður sýni rannsóknir að stúlkunum okkar líði ekki nægilega vel í skólanum en samviskusemin reki þær áfram, til að fá góðar einkunnir og ná árangri.

Hermundur Sigmundsson.
Hermundur Sigmundsson. Kristinn Magnússon


Fanga þarf ástríðuna

Hermurndur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi, segir að fanga þurfi ástríðuna til að fá það besta út úr hverjum og einum nemanda. „Við verðum að fanga áhuga drengjanna okkar ef við ætlum að snúa þessari þróun við. Þeir eru sterkastir þar sem áhugi þeirra og ástríða liggja. Það er engin tilviljun að drengir komast oft á siglingu í lok framhaldsskólans og sérlega þegar þeir geta valið sitt áhugasvið. Stúlkurnar eru sterkari framan af, sem má að hluta til skýra með sterkum tengslum milli þrautseigju og grósku hugarfars hjá stúlkum. Drengirnir hafa hins vegar sterkara samspil milli ástríðu og þrautseigju þannig að þegar áhugi þeirra glæðist og valið í námi eykst þá vakna þeir og rjúka af stað,“ segir hann.

Að sögn Hermundar á hiklaust að vinna út frá kenningum um aðlagandi nám, bæði fyrir drengi og stúlkur. Að námið sé aðlagað að einstaklingnum. Hann nefnir Margréti Pálu Ólafsdóttur og Hjallastefnuna sem dæmi um hvernig reynt hefur verið að aðlaga nám. Þar sem leitast er við að mæta þörfum kynjanna á þeirra forsendum.

Ásthildur Bj. Snorradóttir.
Ásthildur Bj. Snorradóttir. Eggert Jóhannesson


Verkfærin eru til staðar

Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur segir að verkfærin séu til staðar í skólakerfinu en það vanti að upplýsa foreldra og fagfólk betur um hvað sé í boði og hvernig úrræðin nýtist best með hagsmuni allra barna í huga. Hún bendir á, að góður málþroski sé undirstaða alls náms og sé hann ekki fyrir hendi geti það leitt til námsörðugleika og hegðunarvandamála hjá börnum. „Á Íslandi er miklum peningum varið í skólakerfið, samanber í stuðningstíma og sérkennslu. Hins vegar þarf að styðja við sérkennara og umsjónarkennara með því að auka samvinnu, teymisvinnu og þverfaglega nálgun í flóknum málum hjá stórum hópi barna með mikla námsörðugleika.“

Ásthildur segir miklu muna um fyrstu árin og fylgjast verði sérstaklega vel með drengjum enda taki þeir stundum seinna við sér en stúlkurnar. „Því fyrr sem við finnum börnin sem eru með málþroskafrávik og þurfa íhlutun þeim mun betra. Þá er hægt að bregðast srax við, áður en skaðinn verður meiri. Snemmbær íhlutun er lykilatriði í þessu sambandi.“

Tryggvi Hjaltason.
Tryggvi Hjaltason. Ljósmyndir/Óskar Pétur Friðriksson


Beisla þarf orkuna

Tryggvi Hjaltason, faðir, formaður Hugverkaráðs og starfsmaður tölvuleikjafyrirtækisins CCP, bendir á að nú þegar séu til staðar virkilega jákvæðir þættir í menntakerfinu sem byggi að mörgu leyti á styrkleikum til kennslu sem birtast í tölvuleikjum nútímans. „Ég tel að það sé engin tilviljun að svokallaðir þemadagar mælist vel fyrir í skólum. Á þemadögum fá nemendur að velja sér hópa og fást við eitthvað sem er nálægt áhugasviði þeirra, hvort sem það er að hanna fatnað, smíða eldflaug, setja upp dansatriði eða eitthvað allt annað. Þetta skorar hátt fyrir tilgang. „Síðan útskýrir leiðbeinandinn hvert hlutverk nemandans er, sagan, og hann lærir alla vikuna gegnum það að framkvæma og gera. Að lokum er einhverskonar afurð sem eru þá verðlaunin sem styrkja enn betur tilganginn. Þannig finnur nemandinn sig í verkefninu og námið verður skilvirkt. Ég hef aldrei heyrt nokkurn nemenda eða kennara lýsa því yfir að þemadagar séu glataðir.“

Tryggvi segir mikilvægt að beisla orku drengja á uppbyggilegan hátt. Sumir kennarar segja að drengir trufli gjarnan kennslu meira en stúlkur, meðan aðrir kennarar hafa bent Tryggva á leiðir sem þeir hafa prófað til að láta þá eyða orkunni. 

Tryggvi var sjálfur á þessum stað í skóla. Hann skildi t.d. ekki af hverju hann þurfti að læra dönsku og eðlisfræði og lagði sig þ.a.l. lítið fram í þeim efnum. Þá skarst eðlisfræðikennarinn hans í leikinn. „Hann vissi að ég hafði mikinn áhuga á seinni heimsstyrjöldinni og eftir að hann útskýrði fyrir mér hvernig eðlisfræði hefði bundið enda á þau átök með kjarnorkusprengjunni þá glæddist áhugi minn á faginu til muna.“

Nánar er fjallað um vanda drengja í skólakerfinu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: