Ávallt skal taka hótanir alvarlega

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að ávallt skuli taka hótanir alvarlega. Sjaldnast verði neitt úr þeim en alltaf gæti verið einhver sem vill fylgja þeim eftir. „Við skulum ekki vanmeta hvað þetta er alvarlegt,“ sagði Guðlaugur Þór, sem fékk líflátshótanir á samfélagsmiðlum árið 2019 í tengslum við þriðja orkupakkann.

Í Sprengisandi á Bylgjunni sagði hann að haft hefði verið samband við aðilana sem hótuðu honum á sínum tíma. Saga hefði verið sett af stað og hann þurft að bregðast við henni. „Hún fór eins og eldur í sinu. Síðan þurfti maður að hlaupa til strax og leiðrétta þetta,“ sagði hann. „Þetta var fullkomin þvæla frá a til ö.“

Guðlaugur nefndi að þó svo að leiðrétting á svona sögu birtist opinberlega þá sæju hana ekki nema kannski um 80% af þeim sem sáu hina fréttina, ef allt gengur vel. „Það er ekkert sjálfgefið að fólk fái leiðréttinguna og skilji út á hvað málið gengur. Það er auðvelt að koma hlutunum af stað,“ sagði hann.

Ráðherra nefndi í þessu samhengi hversu mikilvægt væri stuðla að auknu öryggi á netinu, meðal annars svo að fölskum fréttum yrði ekki komið af stað.

Hann minntist á skotárásina á bíl borgarstjóra og sagði að ekki mætti vanmeta hversu gæfusamir Íslendingar hefðu verið hvað viðkemur ógn sem þessari í garð stjórnmálamanna. „Það að við höfum verið laus við þetta eru mikil forréttindi,“ sagði hann. „Við þurfum að huga að því hvernig við getum séð til þess að þetta verði svona um alla framtíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina