Vatnshæðin virðist hafa náð hámarki

Jökulsá á Fjöllum.
Jökulsá á Fjöllum. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Svo virðist sem vatnshæðin í Jökulsá á Fjöllum hafi náð hámarki í gær. Þá var hún 530 sentímetrar. Síðan þá hefur hún mælst heldur stöðug en minnkað lítillega. Núna mælist hún 526 sentímetrar.

Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, keyra tveir sérfræðingar frá Veðurstofunni norður í dag.

Líklega geta þeir ekki kannað aðstæður fyrr en í birtingu í fyrramálið. Þá munu þeir kíkja á mæli Veðurstofunnar sem þar er og setja upp vefmyndavél á brúna.

Að sögn Einars vaktar lögreglan brúna með eigin vefmyndavél á meðan Veðurstofan fylgist með vatnshæðinni og jarðskjálftaóróa við brúna. Hann hefur ekki verið neinn núna en þegar stóra krapaflóðið fór yfir veginn síðast mátti greina merki um óróa.

Ljósmynd/Lögreglan

Óvissustig almannavarna er á svæðinu. Vegna hættu á krapaflóði á veginum við Jökulsá á Fjöllum verður vegurinn aðeins opinn í björtu, eða á milli 9 og 18. Umferðarstýring er við brúna, segir á vef Vegagerðarinnar.

Einar segir Veðurstofuna vera í samskiptum við mann Vegagerðarinnar á vettvangi. Hún mun heyra strax í honum ef aðstæður breytast.

Líklegt er að ástandið sem er uppi núna haldi áfram næstu daga og vikur, bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert