Bolli biðst afsökunar og vill fjarlægja myndskeiðið

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bolli Kristinsson athafnamaður.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bolli Kristinsson athafnamaður. mbl.is/samsett mynd

Bolli Kristinsson athafnamaður, sem kenndur var við verslunina 17, baðst í gærkvöldi afsökunar á rangfærslum í myndbandi sem „Björgum miðbænum“ birti á dögunum. Þá hefur hann beðið um að myndbandið verði fjarlægt. 

Myndbandið ber heitið „Óðinstorg, bruðl og spilling“. Það er talsett af Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins. Í myndbandinu er sagt að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi keypt þrjú bílastæði af Reykjavíkurborg án útboðs. Það segir Bolli ekki rétt. 

„Flest er rétt með haft en ein alvarleg rangfærsla hefur komið fram, að Dagur B. Eggertsson hafi keypt þrjú bílastæði af borginni án útboðs, þetta er rangt og þar sem mitt nafn er í kredit-lista í lok myndbandsins bið ég borgarstjóra og aðra aðila málsins afsökunar,“ skrifar Bolli á Facebook-síðu hópsins Opnum Laugaveg og Skólavörðustíg. 
„Ég hef aldrei verið ósannindamaður og var mér sagt að allt sem þarna er sagt væri eftir áreiðanlegum heimildarmönnum. Hef ég beðið um að þetta myndband verði tekið út strax,“ skrifar Bolli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina