Kæra kvótakerfi Vatnajökulsþjóðgarðs

Frá íshelli í Breiðamerkurjökli.
Frá íshelli í Breiðamerkurjökli. mbl.is/RAX

Ferðaþjónustufyrirtækið Niflheimar í Vatnajökulsþjóðgarði hefur sent inn stjórnsýslukæru á hendur þjóðgarðinum vegna innleiðingar nýs þjónustusamnings þjóðgarðsins við rekstraraðila.

Með samningnum er komið á svokölluðu kvótakerfi á fimm svæðum innan þjóðgarðsins, þ.e sett eru takmörk á þann fjölda gesta sem hleypa má inn á svæðið í skipulögðum ferðum og þessum kvóta síðan skipt milli fyrirtækja. Svæðin sem um ræðir eru Breiðamerkurjökull austur, Breiðamerkurjökull vestur, Falljökull/Virkisjökull, Skeiðarárjökull og Skálafellsjökull.

Aldrei hafa áður verið gerðir samningar um atvinnustarfsemi innan Vatnajökulsþjóðgarðs, en það var fyrst þegar atvinnustefna garðsins var samþykkt í fyrra sem ákveðið var að gera slíka samninga við ferðaþjónustufyrirtæki á fyrrnefndum svæðum.

Kvótakerfið er, að sögn þjóðgarðsins, þróunarverkefni og af þeim sökum voru samningar aðeins gerðir til eins árs, frá 1. október 2020 til 30. september 2021. Ferðaþjónustufyrirtækin höfðu þó enga aðkomu að gerð samninganna og var einfaldlega gert að undirrita þá sjö dögum eftir að drögin voru kynnt fyrirtækjunum. Þetta var um miðjan október og voru samningar því látnir gilda afturvirkt.

Krefjast þess að takmörk verði felld úr gildi

Í stjórnsýslukærunni, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er þess krafist að ákvörðun þjóðgarðsins um úthlutun gesta verði felld úr gildi og að viðurkennt verði að Niflheimum sé heimilt að stunda starfsemi sína án takmarkana. Telur fyrirtækið að engin lagastoð sé fyrir úthlutuninni í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, sem sett voru árið 2007.

Atli Már Björnsson, jöklaleiðsögumaður og einn eigenda Niflheima, segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun um kvótann sé vanhugsuð. „Það voru engar rannsóknir gerðar eða athugað með nokkrum hætti hversu margir gætu farið inn á ákveðin svæði. Þess í stað ákveða þeir ákveðna tölu einhliða.“

Á Breiðamerkurjökli, þar sem fyrirtæki hans heldur meðal annars úti jöklagöngum og íshellaferðum, var tekin ákvörðun um að 650 manns mættu fara inn á hvorn hluta jökulsins, austur- og vestur-, á hverjum degi.

Vatnajökulsþjóðgarður fer fram á að kærunni verði vísað frá.
Vatnajökulsþjóðgarður fer fram á að kærunni verði vísað frá. mbl.is/Sigurður Bogi

Í janúar tók þjóðgarðurinn raunar þá ákvörðun að fella niður ákvæði um fjöldatakmarkanir með vísan til faraldursins. Atli segir þó að með því sé málið ekki unnið. „Þessi samningur gildir til loka september, en það má búast við að þá verði nýr samningur lagður fram sem byggi á honum. Ef þetta kerfi er áfram notað þá mun það virka alveg eins,“ segir hann. Því sé mikilvægt að halda kærunni til streitu og fá ólögmæti ákvörðunarinnar viðurkennt.

Kvóta úthlutað til fyrirtækja án reksturs á svæðinu

Atli gerir enn fremur athugasemd við skiptingu kvótans á milli ferðaþjónustufyrirtækja. Henni var háttað þannig að fyrirtæki sóttu um tiltekinn kvóta og honum síðan úthlutað milli fyrirtækja eftir torskildum reiknireglum. Niflheimar fengu úthlutað 45 sætum á dag á austanverðum jöklinum en 48 á vestanverðum. Er það umtalsvert minna en fjöldi viðskiptavina hefur verið undanfarin ár, þ.e. áður en kórónuveirufaraldurinn lét á sér kræla.

„Úthlutunin sjálf tók ekkert mið af þeim aðstæðum sem höfðu verið í rekstri síðustu ár,“ segir Atli og bendir á að um þriðjungur kvótans hafi til að mynda farið til fyrirtækja sem ekki hafa nokkurn tíma verið í rekstri á svæðinu. Þá hafi komið í ljós að úthlutunin byggðist að hluta á því hversu mikið fyrirtæki sóttu um. Það er, fyrirtæki höfðu hag af því að sækja um sem allra mestan kvóta. „Það veit það hver maður hvernig hann á að sækja um næst,“ segir Atli og á þá við að sækja um sem mestan kvóta.

Vegna kórónuveirufaraldursins og algers hruns í ferðamennsku af hans völdum hefur kvótakerfið í raun ekki haft áhrif á fyrirtækið enn sem komið er.

Síðasta hálfa árið áður en faraldurinn skall á tók fyrirtækið þó á móti rúmlega 20.000 ferðamönnum inn á Breiðamerkurjökul, eða um 120 á dag að meðaltali, svo ljóst er að takmarkanirnar hefðu áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Meðaltalið segir þó ekki alla söguna enda mikið óhagræði af því að ekki sé heimilt að færa kvótann milli daga, segir Atli. Þannig tækist ekki að nýta kvótann til fulls.

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert