Verðum að hafna öfgum og ofbeldi

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í nýliðinni viku vöktu fregnir af skotárásum á bækistöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjórahjóna óhug og áhyggjur. Við, sem búum í þessu landi, verðum að hafna öllum öfgum og ofbeldi á vettvangi þjóðmála. Heimili þeirra, sem gefa sig að störfum á því sviði, verða að vera friðhelg, rétt eins og önnur híbýli.“

Þannig hefst facebook-færsla Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þar sem hann fjallar meðal annars um skotárásir sem gerðar hafa verið á skrifstofur Samfylkingarinnar og bifreið Dags B. Eggertssonar borgarstjóra fyrir utan heimili hans.

Skotið var á skrif­stof­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.
Skotið var á skrif­stof­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blessunarlega hafa þessir ógnartilburðir verið fordæmdir hvarvetna, og ekki síður hvers kyns viðleitni til að réttlæta þá eða gera lítið úr þeim. Og blessunarlega búum við í þannig samfélagi að fólk í áhrifastöðum þarf ekki að njóta verndar daginn út og inn. Við lifum á tímum sífellt örari breytinga á mörgum sviðum en ég trúi því að Íslendingar vilji halda í þessa birtingarmynd frelsis og jafnræðis hér á landi, hófsemdar og öfgaleysis,“ skrifar Guðni.

„Gagnrýni er eitt og óhróður annað“

Í því ljósi segir Guðni að það megi ræða þann ósóma sem geti viðgengist á samfélagsmiðlum, athugasemdakerfum fjölmiðla og víðar í opinberri umræðu. Víst þurfi að verja málfrelsi og fólk, sem býður sig fram til starfa á opinberum vettvangi, að geta þolað harða gagnrýni og nauðsynlegt aðhald. 

En öllu má ofgera og gagnrýni er eitt og óhróður annað, aðhald eitt og rógur annað. Öll þau, sem vilja takast á með rökum, þurfa líka að sýna að þau vilji ekki stuðning þeirra sem fara um víðan völl með innantómum gífuryrðum, dylgjum og dónaskap,“ skrifar forsetinn.

Guðni segir að internetið hafi valdið þeirri miklu lýðræðisbyltingu að hver sem er getur tjáð sig og náð athygli annarra, sem sé fagnaðarefni. 

Ég tek því undir með breska leikaranum Rowan Atkinson, þeim mikla snillingi, sem minnti nýlega á mikilvægi þess að ólíkar raddir heyrist í samfélaginu, að við megum ekki neita því að heyra skoðanir sem okkur mislíkar. Auðvitað eigum við þó ekki að þola hatur og hótanir í skjóli málfrelsis. Sömuleiðis þykir mér það leiðinlegur plagsiður þegar fólk segir einfaldlega „mín skoðun“ og ætlast til að hún hljóti þá vera jafngild öðrum skoðunum, hversu órökstudd og ósanngjörn sem hún getur verið. Hvers kyns skoðanir má ekki bara leggja að jöfnu. Til eru vísindi og til eru bábiljur. Til er sannleikur og til er lygi.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert