Borgarstjórn einróma um að fordæma árásirnar

Borgarstjórnarfundur í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Borgarstjórnarfundur í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Á fundi borgarstjórnar í kvöld var samþykkt samhljóða ályktun vegna skotárása sem gerðar voru á bíl borgarstjóra og skrifstofur stjórnmálaflokka. Árásirnar eru fordæmdar með eftirfarandi ályktun:

„Borgarstjórn fordæmir árásir á höfuðstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra og lítur þær mjög alvarlegum augum. Því miður hafa margir kjörnir fulltrúar áður fengið hótanir vegna starfa sinna.

Allt slíkt ofbeldi er aðför að okkar frjálsa lýðræðislega samfélagi og með öllu óásættanlegt. Gæta verður hófs í umræðu um kjörna fulltrúa og virða friðhelgi einkalífs. Við viljum ekki samfélag þar sem fólk sem helgar sig samfélagsmálum þarf að óttast um öryggi sitt og sinna nánustu.“

Fyrrverandi lögreglumaður er í haldi lögreglunnar, grunaður um að hafa verið að verki í einhverjum tilvika.

mbl.is