Ekkert hæft í þrálátum orðrómi

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. Kristinn Magnússon

Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki undanfarið, þess efnis að bóluefnaframleiðandinn Pfizer hafi samþykkt umleitanir sóttvarnayfirvalda um að Ísland verði tilraunaland fyrir fjórða fasa rannsókna á bóluefninu.

Þýddi það að Íslandi myndi berast nægt bóluefni til þess að skapa hér hjarðónæmi samkvæmt skilgreiningu í sóttvarnafræðum.

Hefur því verið fleygt fram áður af sóttvarnayfirvöldum hér á landi að nægilegt væri að bólusetja um 60% landsmanna til þess að ná því fram.

Menn eru að ræða málin 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekkert sé frekar að frétta af umleitunum Íslendinga umfram það sem áður hefur verið sagt. Enginn samningur liggi á borðinu og því sé ekkert meira um málið að segja á þessu stigi.

„Auðvitað eru menn að ræða málin og velta upp hugmyndum fram og til baka. Pfizer hefur lýst miklum áhuga á þessum tillögum sem við settum fram. En það er ekki kominn neinn samningur og við vitum ekkert hvort samningur eða tillögur þeirra séu ásættanlegar fyrir okkur,“ segir Þórólfur.

Ein sögusögnin er á þá leið að búið sé að ákveða bólusetningardagana og að þeir verði í kringum næstum mánaðamót. Þórólfur segir það rangt.

„Þetta er ekki komið svo langt að búið sé að ákveða hvaða daga eigi að bólusetja. Ég myndi nú vita það. Þetta er ekki komið eins langt og einhverjir eru að segja. Það er áhugi hjá Pfizer og áhugi hjá okkur. Menn eru bara að ræða málin og umfram það er ekkert klárt,“ segir Þórólfur.

Tilgangur rannsóknarinnar yrði sá að svara rannsóknarspurningum frá bóluefnaframleiðandanum Pfizer.
Tilgangur rannsóknarinnar yrði sá að svara rannsóknarspurningum frá bóluefnaframleiðandanum Pfizer. Kristinn Magnússon

Hann segist vonast til þess að svör muni fást frá Pfizer í þessari viku.

„Þeir hafa sagt það að þeir muni líklega gefa okkur svör í þessari viku. En svo veit ég ekkert um það í hvaða formi það verður,“ segir Þórólfur.

Kannast ekkert við hiksta vegna danskra afskipta 

Fram kom í máli Kára Stefánssonar í samtali við Fréttablaðið 12. janúar að hann teldi að danskur trúnaðarfulltrúi hjá Pfizer hefði haft neikvæð áhrif á viðræðurnar.

„Þeir eru að öllum líkindum að eyðileggja þetta fyrir okkur,“ sagði Kári. Rótin að þessu sé trúnaðarbrestur umboðsmanns Pfizer í Skandinavíu, danskrar konu sem Kári segir heita Mette.

„Hún var á fundinum sem við áttum við vísindamenn Pfizer,“ var haft eftir Kára.

Kári Stefánsson og Þórólfur Árnason hafa farið fyrir umleitunum Íslands …
Kári Stefánsson og Þórólfur Árnason hafa farið fyrir umleitunum Íslands um að rannsóknin fari fram hér á landi. Kristinn Magnússon

Mette hafi í framhaldinu upplýst sóttvarnastofnun Danmerkur um málið og sagði Kári að danskir væru að reyna að „lauma“ sér inn í tilraunina. Þórólfur kannast ekki við að hikst hafi komið í viðræður vegna þess að Danir hafi viljað vera með.

„Ég kannast ekkert við það að hikst hafi komið vegna Dana. Ég veit ekkert um málið umfram það sem ég hef heyrt í fréttum,“ segir Þórólfur.

Hvernig er samstarfi ykkar Kára Stefánssonar háttað í þessu máli?

Við erum bara saman í þessu máli og við höfum fylgst að, verið saman þegar við hittum og erum í samskiptum við Pfizer. Það væri náttúrlega mjög óeðlilegt ef við værum hvor í sínu horninu,“ segir Þórólfur.

Enginn tilgangur að ræða málin fyrr samkomulag er undirritað 

Hann telur tómt mál að vera með vangaveltur um eitthvert samkomulag þar sem enginn samningur hafi verið undirritaður.

„Ég hef ekki séð tilgang í því að fjalla um málið og hver segi hvað. Svo verður ekki neitt af neinu. Hvaða tilgang hefur það? Það er enginn tilgangur í að ræða málið í einhverjum smáatriðum fyrr en samkomulag er undirritað,“ segir hann.

Samningsbrot borið á góma 

Nokkurs taugatitrings virðist gæta í stjórnkerfinu um málið. Tilgreint er í samningum við ESB um úthlutun bóluefna að óheimilt sé fyrir einstaka þjóðir að kaupa bóluefni. Óttast einhverjir að umleitanir eða samningur Íslands og Pfizer vegna þessa muni leiða til þess að ESB muni líta á málið sem samningsbrot og þar með myndi Ísland missa rétt til úthlutunar bóluefnis í samræmi við samninginn við ESB.

Hvort sem slíkur ótti er á rökum reistur eður ei skal ósagt látið en ljóst er að mikillar óánægju gætir meðal sumra þjóða sambandsins um það hve hægt hefur gengið að fá bóluefni afhent. Þannig hafa Ítalir meðal annars hótað Pfizer lögsókn vegna meintra samningsbrota. Einn viðmælenda mbl.is orðaði það þannig að „bóluefnastríð“ væri í gangi. 

Ýmsar þjóðir Evrópusambandsins eru ósáttar við þann langa afhendingartíma sem …
Ýmsar þjóðir Evrópusambandsins eru ósáttar við þann langa afhendingartíma sem er á bóluefninu. AFP

Engin kaup muni fara fram 

Þórólfur segir að ef af samningi við Pfizer verður sé ekki um að ræða kaup á bóluefni heldur verði bóluefnaskammtar sendir hingað í þágu rannsóknarinnar.

„Það er hluti af ferlinu að skoða hvort þetta samræmist samningnum við Evrópusambandið. Það verður bara að skoðast í ráðuneytinu. Þess vegna eru þetta óformlegar viðræður og menn eru bara að skoða málið frá öllum hliðum,“ segir Þórólfur og bætir við: „Síðan er í raun ekki frá neinu að segja fyrr en ljóst verður hvort af þessu verður eða ekki,“ segir Þórólfur.

Einstakt tækifæri 

Hefur þú orðið var við það að ef að samkomulag næst við Pfizer þá gæti það verið litið hornauga af öðrum þjóðum?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Auðvitað vitum við að alls konar umræður eru í gangi um það hvort siðferðislega rétt sé að gera þetta með þessum hætti. Ég hef hins vegar ítrekað bent á að með þessu erum við að reyna að svara rannsóknarspurningu um það hvernig svona bóluefni virkar á samfélag, hvernig það virkar á svona faraldur innanlands.

Við teljum að hér sé einstakt tækifæri til að svara öllum þessum rannsóknarspurningum sem eru gagnlegar fyrir okkur Íslendinga og aðrar þjóðir sem eru að reyna að standa að því að klára faraldurinn með bólusetningum. Ef við fáum svo meira bóluefni vegna kaupa þá yrði það gefið til annarra þjóða.“

Hversu reglulega hafa samskipti verið við Pfizer vegna málsins?

„Svona af og til,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina