Vegagerðin eykur kröfur á verktaka

Í framtíðinni verða gerðar auknar kröfur til verktaka sem vinna á vegum Vegagerðarinnar og þá þurfa eftirlitsaðilar að fara í gegnum faggildingarferli til að geta sinnt hlutverki sínu. Þetta var kynnt í morgun og er liður í aðgerðum sem gripið var til vegna banaslyss á Kjalarnesi síðasta sumar, þegar stórhættulegar aðstæður sköpuðust á nýlögðu malbiki.

„Okkar lærdómur er kannski sá að þó að við séum að kaupa þjónustu af aðilum sem hafa viðurkennd gæðakerfi tekin út af eftirlitsaðilum að þá þurfum við að auka og styrkja viðbrögð okkar við mögulegum frávikum frá því,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Aðgerðirnar voru sem fyrr segir kynntar á morgunverðarfundi Vegagerðarinnar þar sem Bergþóra og sérfræðingar kynntu þessi aðgerðirnar sem eiga að koma í veg fyrir að aðstæðurnar sem komu upp síðasta sumar geti komið upp að aftur.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér

„Stærstu tíðindin eru þessar auknu kröfur sem við erum að gera til verktaka og eftirlitsaðila varðandi aukin gæði, aukna þekkingu og færni á framkvæmdunum sjálfum. Og eins skýrari kröfur um viðbrögð og viðurlög við frávikum,“ segir Birkir Hrafn Jóhannesson, verkfræðingur og verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni, en bæði er rætt við Bergþóru og Birki í myndskeiðinu hér að ofan.  

Eitt af því sem verður gert og almenningur ætti að finna fyrir er að bæta merkingar þar sem nýtt malbik hefur verið lagt. Markmiðið er að draga úr umferðarhraða og þá sérstaklega þegar blautt er. Náist ekki að hemlaprófa að fullu verður hraðatakmörkunum beitt. Hér má sjá frekari útlistun strangari kröfum Vegagerðarinnar.

Ímyndarvandi vegakerfisins

Í lok fundarins sem var sendur út í beinu streymi gafst fólki kostur á að spyrja spurninga með því að senda inn fyrirspurnir. Af þeim mátti greinilega heyra töluverða tortryggni sem gætir í garð Vegagerðarinnar. Ítrekað komu upp spurningar um efnin sem notuð eru í vegi landsins. Hvort sem um er að ræða malbik sem er sterkasta tegund slitlags eða svokallaðar klæðingar sem er bundið slitlag en mun ódýrara og algengara hér á landi. Í því hafa komið ítrekað upp svokallaðar blæðingar sem töluvert tjón hefur orðið af. Síðast í vetur.

Þegar spurt er út í þessar hugmyndir fólks um vegakerfið eru svörin á þá leið að viðhaldi vegakerfisins hafi verið illa sinnt á árunum eftir hrun vegna niðurskurðar. En jafnframt að léleg efni hafi ósjaldan verið notuð í íslensku malbiki fram til ársins 2007 þegar rannsóknir tóku framförum hér á landi með bættum tækjabúnaði. Hins vegar var því haldið til haga að Íslendingar eru að halda úti mun umfangsmeira vegakerfi en þekkist víðast hvar í Evrópu sé miðað við höfðatölu og því þarf ekki að undra að lengd þess komi að einhverju leyti niður á gæðunum. Einungis 4% af vegum landsins eru malbikaðir og 39% eru með klæðingum.

Hér má sjá nýja umferðarmerkingu þar sem varað er við …
Hér má sjá nýja umferðarmerkingu þar sem varað er við aukinni hættu í bleytu þar sem búið er að leggja nýtt malbik. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is