Fimm milljarðar greiddir í tekjufallsstyrki

Skatturinn hefur alls afgreitt um 4.000 umsóknir vegna styrkja sem …
Skatturinn hefur alls afgreitt um 4.000 umsóknir vegna styrkja sem stofnunin hefur á sinni könnu, sem eru tekjufalls- og lokunarstyrkir og stuðningur við fyrirtæki við greiðslu launa á uppsagnarfresti. mbl.is/sisi

Undanfarnar þrjár vikur hafa um fimm milljarðar verið greiddir í tekjufallsstyrki til 822 rekstraraðila. Þessir styrkir leggjast við tugmilljarða stuðning í gegnum fjölþætt úrræði ríkisstjórnarinnar árið 2021.

Tekjufallsstyrkir nýtast fjölmörgum rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins og er markmiðið að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Þar kemur fram að Skatturinn hafi alls afgreitt um 4.000 umsóknir vegna styrkja sem stofnunin hefur á sinni könnu, sem eru tekjufalls- og lokunarstyrkir og stuðningur við fyrirtæki við greiðslu launa á uppsagnarfresti. Skatturinn hefur lokið við að greiða út styrki fyrir 73% umsókna um tekjufallsstyrki en alls hafa um 94% fullbúinna umsókna sem borist hafa Skattinum verið afgreiddar.

Rétt fyrir jól samþykkti Alþingi lög um viðspyrnustyrki, sem ætlað er að koma til móts við vanda rekstraraðila og búa samfélagið undir það þegar heimurinn opnast að nýju. Undirbúningur umsóknanna er flókinn, tímafrekur og leggst við önnur umfangsmikil verkefni Skattsins á þessum árstíma. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum er aftur á móti allt kapp lagt á að hægt verði að hefja móttöku umsókna um viðspyrnustyrki í lok mánaðarins,“ kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert