Rúður brotnar á heimili Ólafs varaborgarfulltrúa

Svona var umhorfs fyrir utan heimili Ólafs þegar ljósmyndara bar …
Svona var umhorfs fyrir utan heimili Ólafs þegar ljósmyndara bar að garði. mbl.is/Sigurður Bogi

Rúður voru brotnar á heimili Ólafs Guðmundssonar, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, í Grafarvogi í nótt. Rúður voru einnig brotnar í þremur öðrum húsum í botnlanganum þar sem Ólafur býr. Lögregla var kölluð til og hafði hún hendur í hári manns sem grunaður er um verknaðinn. Garðkanna virðist hafa verið notuð til verksins. 

„Já, ég get staðfest það og ekki bara hjá mér heldur í þremur öðrum húsum hérna í botnlanganum,“ sagði Ólafur þegar mbl.is spurði hann um atburðinn.

Ólafur segist hafa rætt við lögreglu og nágranna sína, sem einnig urðu fyrir tjóni. Hann er að vonum sleginn.

Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Málið til skoðunar hjá lögreglu

„Auðvitað er maður það. Það á enginn að þurfa að þola svona sama af hvaða ástæðu það er gert. Lögreglan er nú með þetta mál á sinni könnu og því ekki þarft að tjá sig meira um þetta að svo stöddu. Það er bara sorglegt að svona hlutir séu eitthvað sem borgarbúar geti núna átt von á.“

Athygli fréttamiðla beindist að Ólafi í síðustu viku eftir að hann skildi eftir ummæli undir frétt um skotárás á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Ummæli Ólafs vöktu reiði margra og sagði hann því sæti sínu lausu í nefndum borgarstjórnar. Ólafur sagði ummælin hafa verið mistök og bað borgarstjóra afsökunar.

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að málið sé til skoðunar. Enginn er í haldi vegna málsins og segist Elín ekki geta tjáð sig frekar.

Svona var umhorfs fyrir utan heimili Ólafs þegar ljósmyndara bar …
Svona var umhorfs fyrir utan heimili Ólafs þegar ljósmyndara bar að garði. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert