Sá sem myrti Freyju áður verið dæmdur fyrir manndráp

Maðurinn sem játaði á sig víg Freyju Egilsdóttur Mogensen hefur …
Maðurinn sem játaði á sig víg Freyju Egilsdóttur Mogensen hefur áður hlotið dóm fyrir manndráp. Ljósmynd/Lögreglan á Austur-Jótlandi

Maðurinn sem játaði að hafa orðið Freyju Egilsdóttur Mogensen að bana á heimili hennar í Danmörku hefur áður verið dæmdur fyrir manndráp, þá 26 ára gamall.

Í umfjöllun Ekstra Bladet kemur fram að maðurinn hafi árið 1996 hlotið 10 ára dóm fyrir manndráp á tvítugri barnsmóður sinni þegar sonur þeirra var aðeins tveggja ára. Drápið var framið 23. nóvember árið 1995 og er sagt að maðurinn hafi veitt konunni 18 stungusár með eldhúshníf.

Lík konunnar fannst illa farið á heimili hennar og hafði maðurinn farið með son sinn til dagmóður áður en hann keyrði til Árósa að heimili föður síns. Þar tjáði hann föður sínum að hann hefði „framið eitthvað voðalegt“ og hringdi faðir mannsins í lögreglu.

Hann tjáði dómara í málinu að hann hefði ekki ætlað að bana barnsmóður sinni en fékk engu að síður 10 ára dóm eins og fyrr segir.

Játaði á sig morð Freyju

Í gær bárust fréttir af því að lögreglan á Austur-Jótlandi leitaði Freyju Egilsdóttur Mogensen, íslenskrar konu sem búsett var í Danmörku.

Í dag var það svo tilkynnt að lík hennar hefði fundist illa leikið á heimili hennar og var fyrrum sambýlismaður hennar, umræddur maður, handtekinn og færður í varðhald. Óskað var eftir því að fjögurra vikna gæsluvarðhald yrði úrskurðað yfir manninum.

Stuttu seinna játaði maðurinn á sig verknaðinn. Lögregluyfirvöld í Danmörku rannsaka enn málið og hafa hérlend lögregluyfirvöld boðið fram aðstoð sína.

Freyja Egilsdóttir Mogensen var 43 ára þegar hún lést og skilur eftir sig tvö ung börn, sem einnig eru börn mannsins.

Freyja Egilsdóttir Mogensen.
Freyja Egilsdóttir Mogensen. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert