Segir fólki ekki að „fokka sér“ í opinberri umræðu

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mig langar að leggja aðeins orð í belg varðandi umræðuna í stjórnmálum sem við höfum rætt hér síðustu daga og vikur, og ekki að ósekju í kjölfar hryllilegra fregna af því að skotvopnum hafi verið beitt bæði á bíl borgarstjóra og skrifstofur stjórnmálaflokka,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, undir liðnum störf þingsins á Alþingi.

Kolbeinn sagði málið grafalvarlegt og vísaði til fundar þingmannanefndar Eystrasaltsráðsins frá mánudegi. Þar kom fram að einn af hverjum þremur stjórnmálamönnum í Svíþjóð hefur orðið fyrir áreiti, hótunum, ofbeldi og ákveðið að tala ekki um einstaka mál af ótta við þetta allt saman.

Kolbeinn sagði að stjórnmálafólk þyrfti að taka höndum saman og gera allt sem í sínu valdi stendur til að sporna gegn þessu.

Ég er þannig gerður að ég reyni að horfa á hlutina og sjá hvað ég get lært af þeim. Í ljósi alls þess sem gerst hefur hef ég ákveðið að setja mér ákveðnar reglur. Ég hef ákveðið að haga orðum mínum ekki þannig að saka samþingfólk mitt sem ákveður að fara eina leið umfram aðra við afgreiðslu þingmála um ofbeldi, að saka þau ekki um landráð sem hafa aðrar skoðanir en ég hef, að kalla þau ekki illum nöfnum eða saka um mannvonsku, að segja fólki ekki að „fokka“ sér í opinberri umræðu og að reyna ekki að nota niðrandi og smættandi merkimiða. Þetta er það sem ég hef ákveðið að gera í þessari umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert