Boða til mótmæla við sendiráðið

Rússneska sendiráðið í Reykjavík.
Rússneska sendiráðið í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Rússar búsettir hér á landi hafa boðað til mótmæla fyrir utan rússneska sendiráðið klukkan 14 á laugardaginn þar sem brotum gegn mannréttindum og málfrelsi í Rússlandi verður mótmælt.

Yfir 10.000 mót­mæl­end­ur hafa verið handteknir víðs vegar um Rússland eftir að Al­ex­ei Navalní, einn helsti stjórnarandstæðingur landsins, var dæmdur til að afplána tvö ár og átta mánuði af fang­elsis­vist sem áður var skil­orðsbund­in, en hann var sakaður um að hafa rofið skil­orðið.

Al­ex­ei Navalní.
Al­ex­ei Navalní. AFP

Mótmælendur krefjast þess að Navalní og aðrir sem hafa verið handsamaðir í mótmælunum verði látnir lausir án tafar.

Bresk, frönsk, þýsk og banda­rísk stjórn­völd ásamt Evr­ópu­sam­band­inu hafa for­dæmt niður­stöðuna og krefjast þess að Navalní verði lát­inn strax laus. Á sama tíma saka stjórn­völd í Rússlandi vest­ræn ríki um af­skipti af inn­an­lands­mál­um.

Auk mótmælanna við sendiráðið á Túngötu á morgun verður mótmælt á sama tíma í borgum í Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu Belgíu, Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada og víðar, að því er fram kemur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert