Fær ekki börnin til Íslands þrátt fyrir dóm

Faðirinn hefur ekki hitt börn sín í nær tvö ár. …
Faðirinn hefur ekki hitt börn sín í nær tvö ár. (Mynd úr safni). mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pólsk yfirvöld hafa ekki framfylgt úrskurði yfirdómstóls í Póllandi um að pólskri konu beri að fara með börn sín til Íslands til að hitta íslenskan föður sinn. Maðurinn er upprunalega frá Alsír en með Íslenskt ríkisfang. Hann hefur ekki séð börn sín í um tvö ár eftir að barnsmóðir hans tók börn þeirra til Póllands.

Dómurinn féll í desember. Samkvæmt niðurstöðu dómsins var konunni gert að koma með börnin tvö til Íslands innan tveggja vikna. Sá frestur rann út þann 22. desember síðastliðinn. Hún varð ekki við því.

Faðir barnanna höfðaði mál fyrir pólskum dómstól í viðleitni sinni til að fá börnin aftur til Íslands. Málið féll pólsku konunni í vil í undirdómstól en áfrýjunardómstóll í Varsjá dæmdi íslenska föðurnum í hag. Konan er með pólskt ríkisfang. 

Sérstakt stjórnvald sem sér um að framfylgja dómnum 

Fróði Steingrímsson, lögmaður mannsins, segir að Ísland og Pólland séu hluti af Haag-samningnum þar sem m.a. er kveðið á um að innlend stjórnvöld eigi að aðstoða við að flytja börn til upprunalegs lands ef þau eru numin á brott með ólögmætum hætti. Hins vegar sé brotalöm á því hvernig slíkum málum sé framfylgt í Póllandi.

Fróði Steingrímsson lögmaður mannsins.
Fróði Steingrímsson lögmaður mannsins. Ljósmynd/Aðsend

„Það er sérstakt stjórnvald sem sér um að framfylgja dómi eftir að hann er fallinn. Hjá stjórnvaldinu þarf sérstakan úrskurð svo málinu sé framfylgt. Þetta er ólíkt því sem það er í flestum löndum þar sem sjálfkrafa skylda er á yfirvöldum að framfylgja dómum,“ segir Fróði.

Að sögn Fróða hefur dómsmálaráðuneytið sent beiðni um að börnin verði send aftur til Íslands. Þaðan hafi upplýsingar svo fengist um það að fyrst þurfi að fara fram úrskurður um að dómnum verði framfylgt hjá pólska stjórnvaldinu. Að sögn Fróða þarf umbjóðandinn, íslenski faðirinn, að útvega sér lögmann ytra til þess að fá úrskurðinum framfylgt. „Umbjóðandi minn er í veikindaleyfi og ekkert sérstaklega fjáður. Því er staðan erfið,“ segir Fróði.

Þá segir Fróði að óskað hafi verið eftir því af umbjóðanda hans við lögreglu fyrir nær tveimur árum að gefin yrði út alþjóðleg handtökutilskipun á hendur konunnar hjá Europol. Enn hefur ekki verið orðið við þeirri beiðni. „Það er algjörlega óljóst hvernig stendur á því að hún hefur ekki verið gefin út,“ segir Fróði.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert dæmt um málefni dómskerfisins í Póllandi.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert dæmt um málefni dómskerfisins í Póllandi. Þórður

Að sögn Fróða hefur Mannréttindadómstóll Evrópu fjallað um og sent pólskum yfirvöldum ákúrur vegna tregleika þeirra til að virða Haag samkomulagið. Hefur Mannréttindadómstóllin úrskurðað um að framkvæmd mála sé aðfinnsluverð. Pólsk yfirvöld hafi hins vegar ekki brugðist við. 

Líkir málinu við mál Sophiu Hansen 

„Í ljósi sögunnar tel ég framhaldið vera óljóst. Svona í ljósi þess hvernig Pólland hefur virt Haag samkomulagið að vettugi. Staðan er þannig að þarna eru tvö börn sem eru íslenskir ríkisborgarar sem eru brottnumin af móður sinni sem er pólskur ríkisborgari og þeim haldið þar. Í raun er þetta alveg eins og Sophiu Hansen-málið nema með öfugum formerkjum, þ.e. að þarna er faðirinn að reyna að fá börnin til sín.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert