Ljósaslóð í miðborginni

Vetrarhátíð. Ljósadýrð fyllir loftin við Hallgrímskirkju.
Vetrarhátíð. Ljósadýrð fyllir loftin við Hallgrímskirkju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vetrarhátíð í Reykjavík 2021 hefst í dag, 4. febrúar, og stendur til sunnudags. Hátíðin er með breyttu sniði frá því sem tíðkast hefur. Ljósaslóð Vetrarhátíðar verður í lykilhlutverki, slóð ljóslistaverka um miðborgina.

Ekki verður nein formleg opnun á Vetrarhátíðinni né heldur fjölmennir viðburði eins og eðlilegt má teljast á tímum samkomutakmarkana. Safnanótt er frestað til vors og sundlauganótt blásin af.

Ljósaslóð Vetrarhátíðar myndar gönguleið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll og að Ráðhúsi Reykjavíkur. Rúmlega 20 ljóslistaverk eru á þessari leið og verður þeim varpað á byggingar og glugga öll kvöld hátíðarinnar frá kl. 18 til 21. Óvænt ljóslistaverk má finna á leiðinni á veggjum, í gluggum og í húsasundum. Ljósaslóðin er unnin í samvinnu við hina seyðfirsku hátíð List í ljósi.

Reykjavíkurborg og Orka náttúrunnar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu nýlega fyrir samkeppni um ljósverk og leika tvö þau hlutskörpustu lykilhlutverk í Ljósaslóð Vetrarhátíðar 2021.

Þetta eru verkin Samlegð/Synergy eftir Katerinu Blahutova og Þorstein Eyfjörð Þórarinsson sem varð í fyrsta sæti. Verkið er í garðinum við listasafn Einars Jónssonar. Hitt verkið ber heitið Truflun/Interference eftir Litten Nystrøm og Harald Karlsson sem verður varpað á Hallgrímskirkju. Dagskrá Vetrarhátíðar 2021 má nálgast á vetrarhatid.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert