Mál Rúmenanna tekið fyrir á morgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Stefna fjögurra farandverkamanna frá Rúmeníu gegn starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið.

Málið höfða þeir vegna vangoldinna launa, ólögmæts frádráttar af launum og vanvirðandi meðferðar meðan á vinnu þeirra fyrir fyrirtækin tvö stóð. Krafa Eflingar fyrir hönd mannanna hljóðar upp á 6,8 milljónir króna að meðtöldum vöxtum og lögfræðikostnaði.

Í fréttatilkynningu Eflingar um málið segir að málavextirnir endurspegli nöturlegan veruleika farandverkafólks á íslenskum vinnumarkaði.

Mennirnir fjórir hófu störf hjá Eldum rétt í gegnum starfsmannaleiguna Menn í vinnu í upphafi árs 2019. Fram kemur í stefnu fjórmenninganna að þeir hafi verið sviknir um umsamin laun og að kjör þeirra hafi ekki verið í samræmi við íslenska kjarasamninga.

Þá hafi kostnaður af leiguhúsnæði verið dreginn mánaðarlega af launum þeirra, andvirði 57.063 króna, fyrir húsaleigu í 6-8 manna herbergi við það sem sagt er vera ómannúðlegar aðstæður að Dalvegi 24.

Réttarstaða farandverkamanna ótrygg

Í tilkynningu Eflingar segir að forsvarsmenn Manna í vinnu eigi sér langa sögu af stofnun og rekstri starfsmannaleiga, launasvikum, gjaldþroti og endurkomu samsvarandi starfsemi á nýrri kennitölu.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður fjórmenninganna, segir að í málinu reyni á skyldur starfsmannaleiga og fyrirtækja sem noti þjónustu þeirra og á réttindi starfsmanna sem ráðnir séu til starfsmannaleiga og síðan „leigðir“ til notendafyrirtækja til skemmri eða lengri tíma.

„Réttarstaða þessara starfsmanna er afar ótrygg og þeir sæta iðulega illri meðferð og réttindamissi. Sett hafa verið lög til verndar réttindum starfsmanna þessara bæði gagnvart starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum og í máli þessu reynir á hvort nægilegt hald er í lögunum fyrir starfsmennina eða hvort þeir eigi enn  á hættu öryggisleysi og réttindaskerðingu,“ er haft eftir Ragnari í tilkynningu Eflingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert