22.000 vilja að fórnarlamb mansals fái vernd

Rúmlega 22.000 manns hafa skrifað undir áskorun á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna hins nígeríska Uhunoma Osayomore. Fólkið skorar á íslensk stjórnvöld að veita Uhunoma alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi hérlendis af mannúðarsjónarmiðum. 

Uhunoma ræddi við mbl.is nýverið og má sjá viðtalið hér að ofan.

Í pistli með undirskriftasöfnuninni er stuttlega farið yfir sögu Uhunoma. 

„Uhunoma er 21 árs og er frá Nígeríu. Árið 2016, þegar hann var aðeins 16 ára, flúði hann frá heimili sínu í Nígeríu eftir að faðir hans myrti móður hans og yngri systir lést af slysförum.

Hann fór til Lagos, höfuðborgar landsins, og lenti þar í höndum þrælasala sem seldu hann mansali og upphófst þar með hræðilegt ferðalag sem leiddi hann til Íslands í október 2019. Á leiðinni upplifði hann hryllilega hluti, varð vitni að morðum, var haldið föngnum í fjárhúsi og varð ítrekað fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í þrjú ár bjó hann í flóttamannaíbúðum á Ítalíu.

Hann hóf ferðalagið sem barn en endaði á Íslandi sem einstæður fullorðinn maður.“

Segja aðstæðurnar lífshættulegar

Uhunoma býr hjá íslenskri fjögurra barna fjölskyldu og segir í fyrrnefndum pistli að fjölskyldan geti ekki hugsað sér að missa Uhunoma úr lífi sínu. 

„Uhunoma þarfnast engrar aðstoðar íslenska ríkisins og á sér aðeins þá einu ósk að fá að lifa óttalausu lífi sem fullgildur borgari á Íslandi með fjölskyldu sinni og vinum,“ segir í pistlinum og jafnframt:

„Nú er komið að því að íslensk stjórnvöld ætla að vísa Uhunoma úr landi, jafnvel þótt hans málsmeðferð sé enn í gangi, og ætla stjórnvöld þannig, enn einu sinni, að vísa fórnarlambi mansals úr landi og til baka í aðstæður sem eru honum lífshættulegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert