Funduðu í gær og funda aftur á mánudag

Flugvél Bláfugls.
Flugvél Bláfugls. Ljósmynd/Aðsend

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segist ekki geta tjáð sig um stöðu mála í kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Bláfugls (Bluebird Nordic), en fundað var síðast í deilunni í gærmorgun. Deiluaðilar koma aftur saman á mánudag en ekki er búið að ákveða nánari tímasetningu.

Ótímabundið verkfall flugmanna FÍA hjá Bláfugli hófst 1. febrúar síðastliðinn en FÍA telur að ólöglega hafi verið staðið að uppsögnum 11 flugmanna í desember á síðasta ári á meðan hefðbundnar kjaraviðræður stóðu yfir.

Verktakar hafa flogið vélum Bláfugls síðan verkfallið hófst og telur FÍA það vera verkfallsbrot.

Erfið staða í flugi

Erfið staða er á flugmörkuðum nær alls staðar í heiminum vegna faraldursins og er ríkissáttasemjari með aðra deilu á sínu borði á milli Flugfreyjufélags Íslands og Air Iceland Connect.

Aðalsteinn gat heldur ekki tjáð sig mikið um þá deilu en segir að þar sé gott starf unnið í leit að sátt. Síðasti fundur í þeirri deilu var á föstudag og er fyrirhugað að funda aftur á mánudag, rétt eins og í deilu FÍA og Bláfugls.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is