Vonar að John Snorri hafi leitað skjóls í fjórðu búðum

Ekkert hefur spurst til Johns Snorra Sigurjónssonar í um einn …
Ekkert hefur spurst til Johns Snorra Sigurjónssonar í um einn og hálfan sólarhring. Ljósmynd/Aðsend

Lokaspölurinn upp á topp K2 er mjög hættulegur, að sögn Kára G. Schram kvikmyndagerðarmanns sem fylgdi fjallgöngumanninum John Snorra Sigurjónssyni áleiðis upp á fjallið árið 2017. Kári vonast til þess að John Snorri hafi leitað skjóls í fjórðu búðum en þyrlur sem leitað hafa hans og tveggja annarra í dag komast ekki nægilega hátt til þess að sjá í fjórðu búðir.

Ekkert hefur spurst til Johns Snorra og félaga hans í rúman einn og hálfan sólarhring.

Fjallið í heild sinni er stórhættulegt að sögn Kára. Lokaspretturinn, frá fjórðu búðum og upp, er þó sérstaklega hættulegur en þar tekur á móti göngufólki svokallaður flöskuháls og um 200 metra hár ísveggur.

„Það er mikil hætta af því vegna þess að þetta er hálfgerð trekt sem þeir þurfa að ganga í gegnum undir þessum klettaveggjum sem þeir þurfa að komast fram hjá. Það er alltaf svo mikið hættuspil að fara þar um bæði vegna þess að það hrynur úr þessu reglulega og vegna þess að þetta er það hátt uppi að það eru miklir vindar þarna og það blæs ýmislegt niður,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Hættan getur skollið á hvenær sem er“

Þannig blása íshröngl, ísklumpar, snjóflóð, snjóhengjur og annað niður reglulega og segir Kári mikilvægt fyrir göngufólk að koma sér eins hratt og hægt er í gegnum umræddan flöskuháls.

 „Ef þú hangir þarna í einhvern tíma þá fellur eitthvað niður á þig. […] Hættan getur skollið á hvenær sem er,“ segir Kári.

Hugur hans er hjá fjölskyldu Johns Snorra og vinum, og auðvitað John Snorra sjálfum sem Kári vonar innilega að sé heill á húfi.

„Þekkjandi John og vitandi um styrkleika hans og annað ímynda ég mér innst inni að hann hafi komist einhvers staðar fyrir og sé vonandi í [fjórðu búðum], liggi þar ef veður eru slæm og annað. Það er mín von og trú að hann hafi náð að koma sér í skjól og sé bara að jafna sig ef eitthvað hefur komið fyrir,“ segir Kári.

John Snorri á K2 í fyrra.
John Snorri á K2 í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Þyrlan kemst ekki nægilega hátt

Myndum við ekki vita það ef hann væri kominn í fjórðu búðir?

„Málið er þannig að þú sérð ekki þangað upp. Þyrlan nær ekki að fara þetta hátt vegna þess að þyrlur fara ekki yfir 7.000 metra,“ segir Kári.

Það er hans heitasta von að John Snorri sé í fjórðu búðum að jafna sig.

„Þetta er svo válynt og hættulegt. Ef eitthvað kemur fyrir ertu í svo slæmum málum vegna þess að það er enginn sem kemur til þín og bjargar þér. Þú ert bara á eigin vegum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert