Gat sýnt barnabarninu nýju handleggina í fyrsta sinn

Guðmundur Felix er ánægður með stöðuna í myndbandi sem hann …
Guðmundur Felix er ánægður með stöðuna í myndbandi sem hann birti í dag. Ljósmynd/Guðmundur Felix

Vísbendingar eru um að líkami Guðmundar Felix Grétarssonar sé að hafna handleggjum sem græddir voru á hann í síðasta mánuði. Guðmundur segir þó ekkert að óttast, það hafi verið viðbúið. 

Guðmundur greinir frá þessu á facebooksíðu sinni þar sem hann talar við fylgjendur sína í myndskeiði. Hann segir að stærsta hindrunin þegar ígræðslur líffæra, eða í hans tilviki útlima, fara fram sé að líkaminn hafni líffærinu. Hann sýni nú merki þess að líkami hans sé að hafna handleggjunum, en slíkt var viðbúið. Hann fær nú sérstök lyf og segir ekkert að óttast. Vonandi verði allt orðið eðlilegt aftur eftir nokkra daga. 

Guðmundur segir að til standi að hann verði áfram inniliggjandi á sjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var framkvæmd til 22. febrúar. Þá fari hann á sérstakt endurhæfingarsjúkrahús. Hann verði þar í endurhæfingu í þrjú ár, en líklegast þó einungis þrjá mánuði inniliggjandi. 

Guðmundur segir að sér líði vel. Hann sé minna þreyttur þegar hann gengur og hann getur eytt sífellt meiri tíma sitjandi. Hann hafi getað talað við barnabörn sín og sýnt þeim nýju hendurnar í fyrsta sinn í dag, en hann vildi ekki að þau sæju sig rúmliggjandi tengdan ýmsum tækjum. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert